Innlent

Fimmtán ára stúlku boðinn sex ára samningur

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Elite fyrirsætuskrifstofan býður fyrirsætum 6 ára samning sem er ekki uppsegjanlegur.
Elite fyrirsætuskrifstofan býður fyrirsætum 6 ára samning sem er ekki uppsegjanlegur. Mynd/Getty
Elite fyrirsætumiðlunin á Íslandi býður fyrirsætum samning til sex ára sem er óuppsegjanlegur af hálfu fyrirsætunnar nema hún hætti fyrirsætustörfum. Samningur sem Fréttablaðið hefur undir höndum og var boðinn 15 ára stúlku felur í sér sex ára skuldbindingu við fyrirtækið en af því að hún er undir lögaldri áttu foreldrar hennar að skrifa undir samninginn fyrir hennar hönd. Þykir þetta nokkuð langur samningur en hjá Eskimo sem er einnig íslensk fyrirsætuskrifstofa, eru samningar einungis gerðir frá eins til þriggja ára og eru uppsegjanlegir að hálfu beggja aðila.

Samningarnir eru staðlaðir frá Elite samsteypunni að utan en Elite á Íslandi starfar með leyfi frá þeim og er gert að vinna eftir þeirra reglum. Samkvæmt samningnum þá getur fyrirsætan ekki sagt honum upp nema hún ætli sér að hætta í fyrirsætustörfum. Ákveði hún að byrja aftur að vinna sem fyrirsæta þá tekur samningurinn aftur gildi. Eins kemur fram að: „komi til þess að fyrirsætunni verði ókleift að sinna starfsskyldum sínum t.d vegna veikinda, barnsburðar eða náms, framlengist gildistími samningsins um þann tíma.“

Margrét María Sigurðardóttir
Margrét María Sigurðardóttir umboðsmaður barna, segir foreldra bera meginábyrgð á velferð barna sinna og beri að setja hagsmuni þeirra ávallt í forgang. „Foreldrar eiga því ekki að samþykkja slíka samninga ef þeir telja þá með einhverjum hætti ósanngjarna eða skaðlega fyrir barnið,“ segir Margrét.

„Jafnvel þó að foreldrar samþykki svona samning þá tel ég ekki rétt að líta svo á að hann skuldbindi barn til lengri tíma. Það er óeðlilegt að að foreldrar geti skuldbundið barn, sem ef til vill hefur ekki aldur og þroska til að skilja samning, í mörg ár. Þetta er hins vegar álitamál sem yrði að leysa úr hverju sinni, til dæmis út frá efni samningsins og aðstæðum að öðru leyti,“ segir hún en tekur fram að þó þurfi líka að virða óskir barnsins. 

„Mikilvægt er að virða rétt barna til að hafa áhrif á eigið líf og ef það er eindregin ósk barns að vinna við fyrirsætustörf eiga foreldrar að hlusta á þá skoðun og taka tillit til hennar í samræmi við aldur og þroska. Ég á erfitt með að sjá að það geti talist barni fyrir bestu að skrifa undir samning sem skuldbindur það í mörg ár og tel raunar álitamál hvort slíkur samningur gæti yfir höfuð talist bindandi fyrir barnið til lengri tíma.“

Gísli Sigurðsson framkvæmdastjóri Elite vildi ekki tjá sig um efni samningsins þegar Fréttablaðið leitaði eftir því. Bað hann um að fá spurningar sendar skriflega en veitti svo ekki svör við þeim. Segi hann samninginn trúnaðarmál milli skrifstofunnar og fyrirsætunnar og því geti hann ekki tjáð sig um hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×