„Í fyrra fengu á þriðja þúsund fjölskyldur jólaaðstoð hjá okkur. Þær verða ekki færri í ár. Mér sýnist að þetta verði ívið meira en verið hefur en við erum enn að taka við umsóknum. Það bætist alltaf við síðustu dagana fyrir jól og við reynum að leysa úr því,“ segir Ragnhildur Guðmundsdóttir, formaður Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur.
Jólaaðstoð Mæðrastyrksnefndar er í formi matar og börn fá smágjafir, að sögn Ragnhildar. „Það eru margir sem hugsa til okkar á þessum tíma og fyrir jól koma oft stórar pakkningar af ýmiss konar gjafavöru.“
Ragnhildur tekur það fram að sér virðist samfélagið vera að breytast. „Það eru hlutir að gerast sem taka þarf föstum tökum. Það eru margir sem eiga við verulega erfiðleika að etja og eru illa í stakk búnir til að takast á við áföll.“

Aðstoðin sem Fjölskylduhjálp Íslands veitir er í formi jólamatar, að sögn Ásgerðar.
Hjálparstarf kirkjunnar og Hjálpræðisherinn í Reykjavík hafa ákveðið að starfa saman að jólaaðstoð við efnalitlar barnafjölskyldur í borginni í ár. „Þar sem önnur hjálparsamtök eru að störfum á höfuðborgarsvæðinu höfum við afmarkað okkur við barnafjölskyldur en úti á landi geta allir sótt um aðstoð hjá Hjálparstarfi kirkjunnar,“ segir Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins. Rúmlega 1.400 fjölskyldur fengu jólaaðstoð hjá Hjálparstarfi kirkjunnar í fyrra. „Við erum ekki búin að fara yfir allar umsóknir sem borist hafa núna en það er tilfinning okkar að fjöldinn verði ekki meiri í ár. Vonandi verður hann minni.“
Hjá Hjálparstarfinu er aðstoðin í formi inneignarkorts sem hægt er að nota í matvöruverslunum. „Fólk fær kort og þarf ekki að standa í röð eftir aðstoð. Það er meiri mannvirðing í því að fólk fari að versla eins og allir aðrir,“ segir Bjarni.