Innlent

Nýr vatnstankur senn tekinn í notkun á Akranesi

Nýi heitavatnstankurinn á að auka svigrúm fyrir starfsmenn Orkuveitunnar til að bregðast við bilunum.
Nýi heitavatnstankurinn á að auka svigrúm fyrir starfsmenn Orkuveitunnar til að bregðast við bilunum. mynd/eiríkur hjálmarsson
Stefnt er að því að taka nýjan heitavatnstank á Akranesi í notkun á næstu vikum. Ástæða byggingar tanksins er að heitavatnslögn frá Deildartunguhver er komin til ára sinna og bilar reglulega.

Síðast bilaði aðveituæðin í kjölfar vinnu við að tengja nýja heitavatnstankinn inn á veitukerfi bæjarins í byrjun desember. „Eftir fyrri tengivinnuna komu upp tvær mjög bagalegar bilanir með harkalegum afleiðingum fyrir íbúa í bænum. Það var heitavatnslaust í allt að sólarhring,“ segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur.

Heitavatnstankurinn sem tekinn verður í notkun er 6.200 rúmmetrar að stærð en fyrir er heitavatnstankur í bænum sem tekur 2.000 rúmmetra af heitu vatni. „Nýi tankurinn gefur okkur aukið svigrúm til viðgerða. Frá því að heita vatnið endist í fjóra klukkutíma og upp í fjórtán klukkutíma við eðlilega notkun,“ segir Eiríkur.

Langan tíma mun taka að koma aðveituæðinni frá Deildartunguhver í lag að sögn Eiríks. „Við erum að endurnýja lögnina smátt og smátt. Þetta er lengsta hitaveitulögn á landinu og það mun taka áratug að endurnýja hana alla,“ segir Eiríkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×