Innlent

Áætla að ná lögbundnu skuldaviðmiði 2015

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Bygging nýs leikskóla er áætluð í Neskaupstað.
Bygging nýs leikskóla er áætluð í Neskaupstað. mynd/óðinn magnason
Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar fyrir árið 2015 og árin 2016-18 var samþykkt einróma af sveitarstjórnarmönnum.

Samkvæmt áætluninni mun gjaldskrá leikskóla haldast óbreytt og skólamáltíðin mun lækka um fimm prósent. Framlög til fræðslumála munu aukast um hundrað milljónir króna milli ára. Einnig munu 660 milljónir renna til ýmissa framkvæmda. Þar af munu 200 milljónir fara í að byggja nýjan leikskóla í Neskaupstað sem taka á í gagnið árið 2016. Einnig er unnið að stækkun hafna í Neskaupstað og á Reyðarfirði.

Páll Björgvin Guðmundsson
„Í sveitarfélaginu eru sterk útflutningsfyrirtæki. Tekjurnar eru góðar og gera okkur kleift að greiða niður skuldir,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, sveitarstjóri Fjarðabyggðar. Árangurinn sé slíkur að áætlað er að lögbundnu 150 prósenta skuldaviðmiði ætti að vera náð í lok næsta árs. Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir því árið 2017. 

„Við höfum sýnt aðhald í rekstri og einbeitt okkur að því að greiða skuldir en þó byggt upp innviði samfélagsins,“ segir Páll. Unnið hafi verið að stækkun hafnarinnar í Norðfirði og skóla- og atvinnumannvirki hafi verið byggð upp. Einnig sé atvinnuslökkviliði nú til að dreifa í sveitarfélaginu. 

Enn fremur segir Páll að tækifæri séu til frekari uppbyggingar. Sveitarfélagið geti boðið upp á mikla þjónustu án þess að þurfa að leggjast í stórframkvæmdir.

„Eitt þeirra fyrirtækja sem leitar að olíu á drekasvæðinu hefur til að mynda valið að sækja þjónustu til okkar. Hér er fjöldi fyrirtækja sem þjónusta álverið sem eru vel til þess fallin að veita olíufyrirtækjum þjónustu,“ segir Páll að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×