Innlent

„Ákvörðunin byggir eingöngu á geðþótta ráðherra“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ráðuneytisstjórinn Kristján Skarphéðinsson, hér í bakgrunni, tók á móti áskoruninni.
Ráðuneytisstjórinn Kristján Skarphéðinsson, hér í bakgrunni, tók á móti áskoruninni. vísir/valli
Um fjörutíu starfsmenn Fiskistofu mættu í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið í gær til að mótmæla fyrirhuguðum flutningi stofnunarinnar til Akureyrar. Fólkið afhenti ráðuneytisstjóra áskorun er bar yfirskriftina „Svona gerir maður ekki“ en illa hefur gengið að fá fund með Sigurði Inga Jóhannssyni, sjávarútvegsráðherra.

„Þetta eru nokkur atriði sem við höfum bent á,“ segir Björn Jónsson, lögfræðingur hjá Fiskistofu. Til að mynda telji hann að ákvörðunina skorti lagastoð og bendir í því samhengi á dóm Hæstaréttar frá 1998 þar sem flutningur Landmælinga Íslands upp á Akranes var dæmdur ólögmætur. Það mál sé áþekkt þessu að mörgu leyti.

„Flutningurinn brýtur gegn ýmsum meginreglum stjórnsýsluréttar þar sem hann byggir ekki á málefnalegum forsendum heldur eingöngu geðþótta ráðherra,“ heldur Björn áfram. Byggðasjónarmið haldi ekki vatni því opinberum störfum hafi fækkað mjög á höfuðborgarsvæðinu síðustu sex ár. Kostnaðaráætlun ráðuneytisins vegna flutningsins standis heldur enga empíríska skoðun.

„Það vottar líka fyrir ákveðinni hræsni hjá ráðherranum. Hann er til að mynda óánægður með vinnubrögð samstarfsflokks síns varðandi rammaáætlun en viðhefur nákvæmlega sömu hluti í þessu máli. Hann hlýtur að sjá fáránleikann í þessu.“

Aðspurður hvort starfsmenn ætli að leita réttar síns segir Björn það óvíst. Vonandi sjái ráðherra að sér áður en málið komist á það stig.


Tengdar fréttir

„Einhver vanhugsaðasta aðgerð sem ég man eftir“

Þórarinn Eyfjörð, framkvæmdastjóri SFR, segir að það muni kosta meira en þrjár milljónir að þjálfa upp einn nýjan starfsmann á Fiskistofu ef núverandi starfsfólk flyst ekki með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×