Innlent

Nærri 70 prósent á móti sölu áfengis í matvöruverslunum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það kemur Vilhjálmi Árnasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, á óvart að næstum 70 prósent landsmanna séu á móti sölu alls áfengis í verslunum.

„Miðað við kannanir sem hafa komið áður og líka þann stuðning sem ég hef fundið við meðferð málsins á meðal almennings, þá gerir það það,“ segir Vilhjálmur.

Um62 prósent svarenda í nýrri könnun Fréttablaðsins eru á móti sölu áfengis í búðum, 30 prósent eru hlynnt, sex prósent óákveðin en eitt prósent svaraði ekki spurningunni. Þegar einungis er litið til svara þeirra sem tóku afstöðu er hlutfallið 67 á móti 33.

Vilhjálmur hefur lagt fram frumvarp á Alþingi þess efnis að einkasala ríkisins á áfengi verði afnumin. Meðflutningsmenn Vilhjálms á frumvarpinu eru úr öllum þingflokkum nema Samfylkingunni og VG. Frumvarpið gekk til allsherjar- og menntamálanefndar í gær eftir fyrstu umræðu í þinginu.

Vilhjálmur segir að andstæðingar frumvarpsins hafi verið áberandi í umræðunni að undanförnu. „Þannig að við eigum eftir að koma betri svörum á framfæri og þá held ég að þessi hlutföll muni breytast,“ segir Vilhjálmur.

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, er ósammála Vilhjálmi. „Mér finnst þetta ánægjuleg tíðindi og nokkuð í samræmi við það sem ég hafði búist við. Maður heyrir þessi viðhorf mjög víða, ekki bara frá heilbrigðisstéttum og lýðheilsufólki heldur almenningi líka. Fólk skynjar að þetta yrði ekki heillaspor.“

Hringt var í 1.241 mann á öllu landinu dagana 21. og 22. október þangað til náðist í 801.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.