Eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær samþykkti umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur á miðvikudag breytingu á deiliskipulagi þannig að sambýli fyrir fjölfatlaða geti risið við Austurbrún 6.
Gert er ráð fyrir að húsið verði á einni hæð og nái hæst upp í fimm og hálfan metra. Í því verði sex íbúðir og þjónusturými á samtals sex hundruð fermetrum.
„Þessi búsetukjarni, framtíðarheimili fyrir sex fjölfatlaða einstaklinga, er liður borgarinnar í að huga að þörfum allra sem í borginni búa,“ segir Dagur B. Eggertsson.
Alls 49 íbúar í Austurbrún og Vesturbrún mótmæltu því að byggt verði á umræddum stað. Benda þeir meðal annars á að hverfið sé skilgreint sem fullbyggt og þeir hafi mátt vænta þess að ekki yrðu reist fleiri hús nærri þeirra. Heildarmynd svæðisins muni skaðast, útsýni skerðast og verðmæti eigna þeirra minnka. Segjast þeir munu leita réttar síns ef af framkvæmdinni verður.
„Við eigum frekar að hugsa um að búa til samfélag fyrir alla og gæta að þörfum ólíkra hópa,“ segir borgarstjórinn en Jóhann G. Jóhannsson, sem býr í Vesturbrún og er einn þeirra sem mótmæltu byggingunni, segir af og frá að starfsemin sem þar eigi að vera, sambýli fyrir fjölfatlaða, skipti máli varðandi afstöðu hans.

„Hvers virði er aðalskipulagið ef borgin ætlar að hunsa það?“
Aðspurður kveður Jóhann það hafa komið honum mjög á óvart að breytingin skyldi vera samþykkt.
„Ef einkaaðilar hafa viljað breyta eða stækka sín hús þá hefur það ekki verið auðsótt mál, einmitt á þeim forsendum að svæðið sé svo viðkvæmt. En nú er allt í einu hægt að ráðast í svona stórar framkvæmdir og troða þarna niður sex hundruð fermetra byggingu,“ segir hann.
Varðandi hvernig nýja byggingin muni hafa áhrif á hann sem íbúa segist Jóhann ganga flesta daga um svæðið. Þar séu nú þegar þrjú háhýsi auk einbýlishúsa og parhúsa. „Það veitir ekkert af þessu litla græna svæði sem er inn á milli.“