Þrátt fyrir mótmæli nágranna samþykkti umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur í gær að breyta deiliskipulagi þannig að lóð við fjölbýlishúsið Austurbrún 6 stækkar og leyft að byggja sex hundruð fermetra sambýli með sex íbúðum.
Sambýlið verður rekið af velferðarsviði borgarinnar. Þar verða sex íbúðir fyrir fólk sem er með mikla fjölfötlun og þarf umönnun.
Telja óeðlilegt að hafa stofnun á íbúðalóð
Mótmæli nágrannanna lúta fyrst og fremst að skipulagslegum forsendum; þáttum eins og heildarmynd byggðarinnar og bílastæðafjölda. Óeðlilegt sé að reisa stofnun á íbúðarlóð og að útsýni fjölmargra húsa myndi takmarkast mjög segja þeir.
Samtals eru það 49 íbúar umhverfis Austurbrún 6 sem mótmæla í þremur bréfum.
„Þegar íbúar ofanskráðra húsa byggðu eða keyptu hús sín var talið útilokað að frekari byggingar yrðu reistar á þessu svæði enda sættu þessar úthlutanir á viðkvæmu svæði mótmælum,“ er bent á í einu mótmælabréfinu.

Segja leiguliða borgarinnar ekki þora að mótmæla
Engin mótmæli bárust frá þeim sem búa í samtals 71 íbúð í Austurbrún 6. Húsið er í eigu Félagsþjónustunnar.
„Að Austurbrún 6 búa einstaklingar sem eru upp á Reykjavíkurborg komnir og því í erfiðri stöðu að setja sig upp á móti fyrirhugðum breytingum,“ er fullyrt í mótmælabréfi.
Nágrannarnir ætla ekki að sætta sig við breytinguna. „Munu íbúar framangreindra húsa leita réttar síns í þeim efnum verði lagt af stað með fyrirhugaðar framkvæmdir,“ segir í einu mótmælabréfinu.