Innlent

Fjölmiðlar flytji ekki hræðsluáróður

Freyr Bjarnason skrifar
Miklu máli skiptir að fæla erlenda ferðamenn ekki frá Íslandi að ástæðulausu, að mati Ingu Hlínar Pálsdóttur.
Miklu máli skiptir að fæla erlenda ferðamenn ekki frá Íslandi að ástæðulausu, að mati Ingu Hlínar Pálsdóttur. Fréttablaðið/Auðunn
„Það skiptir gríðarlega miklu máli að allir aðilar sýni ábyrgð, andi djúpt og búi ekki til hræðsluáróður,“ segir Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu.

Vika er liðin síðan eldgosið í Holuhrauni hófst. Starfsfólk Íslandsstofu hefur gert allt sem í þess valdi stendur til að miðla upplýsingum um gosið til útlendinga í samvinnu við Almannavarnir. Miklu máli skipti að fæla erlenda ferðamenn ekki frá landinu að ástæðulausu, enda háar fjárhæðir í húfi.

„Það skiptir mestu máli að miðla því að Ísland sé öruggur áfangastaður. Það skiptir líka miklu máli að vera ábyrgur í fréttaflutningi og vera ekki með æsifréttamennsku. Við erum að vinna með okkar PR-skrifstofum úti og erum að fylgjast með umfjölluninni þar. Við erum að tala við erlenda ferðamenn og senda erlendum söluaðilum upplýsingar,“ segir Inga Hlín, spurð út í starf Íslandsstofu vegna gossins.

„Við viljum halda fólki upplýstu. Okkar skilaboð eru líka að Ísland hefur ekki þetta fallega landslag og náttúru nema af því að það er eldgosaeyja. Á sama tíma verðum við að vera ábyrg fyrir því að þarna er hættuástand og við notum það ekki sem sölutæki fyrr en allt er orðið öruggt.“

Engin herferð vegna Holuhrauns er því í undirbúningi í líkingu við Inspired By Iceland sem Íslandsstofa réðst í vegna gossins í Eyjafjallajökli og er enn í gangi. „Það er náttúrulega ekkert hægt á meðan óvissan er svona mikil,“ segir Inga Hlín. „Við megum ekki gleyma að það var allt öðru vísi gos. Myndirnar af því voru allt öðru vísi og kannski meira til að hræða ef eitthvað er. En allt vekur þetta athygli á Íslandi til lengri tíma og við munum að sjálfsögðu horfa til framtíðar ef þetta verður til dæmis í líkingu við Kröfluelda.“

Erlendir fjölmiðar hafa verið mjög áhugasamir um gosið í Holuhrauni og hingað hefur komið fólk frá Sky News í Bretlandi, CNN í Bandaríkjunum, ZDF í Þýskalandi og frá ítalska fréttamiðlinum Youreporter.it, auk þess sem norrænir fjölmiðlar hafa fjallað ítarlega um gosið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.