Innlent

Skoða virkjanakosti fyrir landeigendur

Sveinn Arnarsson skrifar
Flestir þeirra virkjanakosta sem íbúar Dalvíkurbyggðar greiða hagkvæmniathugun á eru í landi einkaaðila.
Flestir þeirra virkjanakosta sem íbúar Dalvíkurbyggðar greiða hagkvæmniathugun á eru í landi einkaaðila. Fréttablaðið/Pjetur
Meirihluti Byggðaráðs Dalvíkurbyggðar samþykkti á síðasta fundi ráðsins tilboð fyrirtækisins Mannvits um að kanna hagkvæmni smávirkjana í bæjarfélaginu. Fulltrúi minnihlutans sat hjá við afgreiðslu málsins og gerir nokkrar athugasemdir við verklag meirihluta byggðaráðsins.

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynduðu meirihluta í Dalvíkurbyggð eftir sveitarstjórnarkosningar í lok maí. Fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar var haldinn þann 18. júní síðastliðinn svo það hefur tekið nýjan meirihluta aðeins 43 daga að klára málið.

„Það eru margar ár og lækir í byggðarlaginu og við settum þetta fram [í kosningabaráttunni] að við vildum láta gera allsherjarúttekt á þeim virkjanakostum sem fyrir væru í sveitarfélaginu og þá með það í huga að það væri hægt að nýta þessa raforku í sveitarfélaginu eða selja hana inn á kerfi Landsnets,“ segir Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar og oddviti lista Framsóknar og óháðra.

Guðmundur Stefán Jónsson, sem situr í byggðaráði fyrir minnihluta í bæjarstjórn, undrast þessi vinnubrögð meirihlutans. Hann hafi ekkert vitað af aðdraganda þessa útboðs eða málavöxtu og því hafi hann ekki haft næg gögn undir höndum til að geta tekið afstöðu til málsins þegar það kom inn í byggðaráð. Því hafi hann setið hjá við afgreiðslu. „Ég veit ekkert af málinu fyrr en tilboð þriggja verkfræðiskrifstofa til að kanna virkjanakosti í Dalvíkurbyggð liggja fyrir byggðaráði á fimmtudaginn síðasta,“ segir Guðmundur. „Við í minnihlutanum vitum afar lítið af málinu og vorum ekki með við undirbúninginn. Einnig höfðum við ekki séð þetta útboð auglýst nokkurs staðar, ekki einu sinni á heimasíðu Dalvíkurbyggðar,“ segir Guðmundur, sem er oddviti J-listans.

Bjarni segir það rétt að lítið samráð hafi verið haft við minnihlutann. Einnig hafi ekki verið um eiginlegt útboð að ræða heldur hafi verið sent bréf á þrjú fyrirtæki og óskað eftir tilboðum frá þeim.

Spurður hvort ekki orki tvímælis að bæjarfélagið skuli greiða fyrir hagkvæmniathuganir smávirkjana sem yrðu í einkaeigu segir Bjarni svo ekki vera. „Þetta var einn af stóru póstunum í kosningabaráttunni. Ég tel að skattgreiðendur og kjósendur sem studdu okkur styðji okkur í þessu. Fólk er almennt sátt við þetta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×