Innlent

Enn beðið eftir skýrslu rannsóknarnefndar

Sveinn Arnarson skrifar
Enn er beðið eftir lokaniðurstöðum rannsóknarnefndar samgönguslysa. Mynd/BaldvinFreyr
Enn er beðið eftir lokaniðurstöðum rannsóknarnefndar samgönguslysa. Mynd/BaldvinFreyr
Eitt ár er liðið frá því að TF-MYX, sjúkraflugvél frá flugfélaginu Mýflugi, brotlenti á kappakstursbraut Bílaklúbbs Akureyrar við Hlíðarfjallsveg á Akureyri. Slysið er enn til rannsóknar hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa.

Geirþrúður Alfreðsdóttir, formaður rannsóknarnefndarinnar, segir að rannsóknin á flugslysinu sé enn í vinnslu og lokaniðurstaðna ekki að vænta í bráð. Eðlilegt sé að rannsókn af þessari stærðargráðu taki nokkurn tíma.

Þrír voru í vélinni þegar hún brotlenti og létust tveir þeirra. Vélin var á leið til Akureyrar úr sjúkraflugi þegar hún brotlenti. Flugvélin var af gerðinni Beech King Air B200, gerð út af Mýflugi og sérhönnuð til sjúkraflugs.

Í bráðabirgðaniðurstöðum rannsóknarnefndar samgönguslysa segir að vélin hafi misst hæð í vinstri beygju og rekið væng niður í kappakstursbrautina með þeim afleiðingum að hún brotlenti.

Bræður Péturs Róberts Tryggvasonar, annars þeirra sem fórust í flugslysinu, hafa óskað eftir því að fram fari lögreglurannsókn á flugslysinu þar sem þeir telja bráðabirgðaniðurstöður stangast á við orð vitna og myndbandsupptöku sem til er af slysinu. Nú er hins vegar beðið eftir lokaniðurstöðu rannsóknarnefndarinnar svo hægt sé að gera sér betur grein fyrir niðurstöðum hennar áður en lögreglurannsókn fer fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×