Innlent

Vísbending um svarta vinnu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kristrún Heimisdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Kristrún Heimisdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Beiðnum um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna nýbygginga og viðhalds íbúðahúsnæðis hefur fækkað verulega á þremur árum. Framkvæmdastjóri Samiðnar segir mögulegt að svört vinna sé að aukast en framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir til í dæminu að á rigningarsumrum eins og í fyrra sæki fólk til sólarlanda frekar en að láta dytta að fasteignum sínum.

Samkvæmt tölum frá Ríkisskattstjóra voru beiðnir um endurgreiðslu í heildina 18.024 árið 2010. Í fyrra voru afgreiddar endurgreiðslubeiðnir aftur á móti 13.911, þar af 12.442 vegna viðhalds á húsnæði en 1.469 vegna nýbygginga. Virðisaukaskattur að upphæð 2.906 milljónir hefur verið endurgreiddur vegna ársins 2010 en 2.629 milljónir vegna ársins 2013. Þær tölur miðast við verðlag hvers árs.

Ráðist var í átakið Allir vinna til að örva framkvæmdir fyrst eftir hrun en það hefur verið framlengt á hverju ári. Verkefnið felur meðal annars í sér að allur virðisaukaskattur af vinnu við íbúðarhúsnæði er endurgreiddur.

Vinna við gerð fjárlagafrumvarpsins stendur nú sem hæst. Fréttablaðið hefur ekki upplýsingar um það hvort fjármálaráðherra hyggst framlengja átakið aftur. Hann hefur þó sagt að hann vilji einfalda virðisaukaskattskerfið.

Kristrún Heimisdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins, segir að samtökin hafi átt ríkan þátt í að koma Allir vinna á. „Við teljum það svo vel heppnað að við hvetjum til þess að það haldi áfram,“ segir Kristrún. „Við vitum líka að öflug kynning skiptir máli og það væri spennandi að fara í nýtt kynningarátak,“ bætir hún við.

„Við fyrstu sýn virðast [endurgreiðslubeiðnir] í takt við það sem við vitum, að einstaklingar eru ekki mikið í nýframkvæmdum og að rigningarsumur hindra viðhald húsa sem ella færi fram. En við munum rýna betur í þessar nýju upplýsingar,“ segir Kristrún enn fremur.

Þorbjörn Guðmundsson framkvæmdastjóri Samiðnar og sérfræðingur um ástandið Kárahnjúka.
Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, segir að það komi á óvart að endurgreiðslubeiðnunum fækki. Hann bendir þó á að verkefnið sé minna kynnt fyrir almenningi núna en áður. „Þetta var sérstaklega auglýst á tímabili til að reyna að örva framkvæmdir þegar þær voru í lágmarki. Þessu var haldið mjög að fólki til að fá það til að nýta sér þetta til að fara í framkvæmdir,“ segir Þorbjörn. Hann segir að líka megi velta fyrir sér hvort svarta vinnan sé að aukast aftur. Þegar verkefni eru unnin svart sækir fólk eðli málsins samkvæmt ekki um endurgreiðslu. „Það er auðvitað umhugsunarvert þó að það sé ekki hægt að vera með neinar fullyrðingar. Þegar peningaveltan verður meiri þá vill svarta vinnan aukast,“ segir Þorbjörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×