Innlent

Landamæravarsla víða í Vesturbyggð

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Hermenn við landamæravörslu.
Hermenn við landamæravörslu.
Þeir sem töldu sig þekkja til stjórnsýlsunnar í Vesturbyggð verða heldur betur að læra þá lexíu upp á nýtt því á fimmtudag hófst þar svokölluð gufupönkhátíð sem umbreytir veruleikanum eins og flestir voru búnir að venjast honum. Til að mynda er sveitarfélagið orðið að landinu Bíldalíu og voru menn í fullum herklæðum við landamæravörslu þar í gær. En í stað þess að biðja um vegabréf seldu þeir þau.

„Þetta er okkar leið til að fjármagna hátíðina og við verðum eiginlega að selja 200 stykki til að standa undir þessu,“ segir Ingimar Oddsson, upphafsmaður hátíðarinnar. Hann segir að gufupönkið eigi sér fjölmarga fylgjendur víða um heim en þeir stunda meðal annars það sem kallað er lifandi hlutverkaleikur en þá taka menn að sér hlutverk sem yfirleitt eiga meira skylt við veruleikann eins og hann var á Viktoríutímabilinu eða þá eins og hann kemur fyrir í verkum höfundanna Jules Verne og H.G. Wells.

Ingimar segir von á erlendum gestum sem séu sérstaklega komnir til að sækja Bíldalíu heim. Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst er þetta fyrsta gufupönkhátíðin sem haldin er hér á landi.

Sverrir Ingi Ebeltoft.
Einn þeirra sem komu til Bíldalíu í lifandi hlutverkaleik er Sverrir Ingi Ebeltoft. „Við erum hérna sjö sem hefur rekið hingað til Bíldalíu en við vorum gerð útlæg frá Rosary,“ segir hann. Ekki dugir að leita að Rosary á korti því Sverrir Ingi segir þann stað vera í annarri vídd en þeirri sem flestum er greinileg. „Við vorum send í burtu á loftfari,“ bætir hann við. Sá farkostur dugði þó ekki alla leið svo það kostaði sjömenningana mikil ævintýri að komast vestur. 

Menn sátu ekki auðum höndum í Bíldalíu en haldinn var skrímsladansleikur í gotneskum stíl og eins voru konungur og drottning krýnd. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstýra Vesturbyggðar, varð því að lúta yfirvaldi Ingimars Oddssonar og Önnu Vilborgar Ágústsdóttur sem tóku við konungdómi. 

Ingimar segist binda vonir við það að þessi hátíð verði árviss atburður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×