Innlent

Ónýti málatilbúnað í hlerunarmálum

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Nokkur tilfelli hafa komið upp að undanförnu þar sem staðfest er að rannsóknaraðilar hafa hlerað símtöl verjenda og sakborninga.
Nokkur tilfelli hafa komið upp að undanförnu þar sem staðfest er að rannsóknaraðilar hafa hlerað símtöl verjenda og sakborninga.
„Þessi hægagangur er ekki ásættanlegur,“ segir Jónas Þór Guðmundsson, formaður Lögmannafélags Íslands.

Stjórn félagsins óskaði eftir fundi með ríkissaksóknara þann 16. apríl 2013 til að ræða framkvæmd símahlustunar og eyðingu upplýsinga þegar um samtöl lögmanna og sakborninga væri að ræða. Félaginu barst svar frá embættinu daginn eftir þar sem fram kom að ekki væri tímabært að funda sérstaklega vegna þessa.

Jónas greinir frá þessu í grein sem hann skrifar í nýjasta tölublað Lögmannablaðsins. Í svarinu hafi komið fram að ríkissaksóknari myndi á næstu vikum upplýsa félagið um tilhögun eftirlits embættisins með hlustunum og breytta framkvæmd á því sviði. Frá því að þetta svar barst hefur erindið tvisvar verið ítrekað án svars frá ríkissaksóknara. „Ég staðfesti það, við höfum ekkert heyrt í þeim,“ segir Jónas.

Í grein sinni segir Jónas að svör ríkissaksóknara við spurningum blaðamanna í tilefni nýgengins dóms í Imon-málinu, þar sem dómarar töldu sérstakan saksóknara hafa gerst brotlegan við lög með því að hlera símtöl verjenda og sakborninga, veiti því miður ekki skýrar vísbendingar um hvort brugðist hafi verið við ábendingum og kvörtunum með breytingum, og þá hverjum, um þessi mál.

Jónas segir að með núgildandi fyrirkomulagi sé hugsanlegt, og reyndar líklegt, að rannsakandinn hafi komist yfir upplýsingar sem gagnist við rannsókn mála og málsókn, enda þótt þær verði ekki notaðar beinlínis sem sönnunargögn í sakamáli. Hann segir þetta allt benda til þess að bæði framkvæmd símhlustunar og eftirlit með henni sé ófullnægjandi.

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari
Þá leggur Jónas í grein sinni í dæmaskyni til þrjár leiðir til úrbóta. Hann segir að að því er eftirlitið snerti hafi ríkissaksóknari sjálfur bent á að embættið hafi vart burði vegna fjárskorts til að sinna því, að minnsta kosti svo vel sé.

„Þetta er staðan eins og hún blasir við okkur,“ segir Jónas í samtali við Fréttablaðið. Hann segir að lokum að verði ekki gerðar úrbætur á bæði framkvæmd símahlustunar og eftirliti með henni blasi við að eina raunhæfa aðhaldið felist í því að dómstólar ónýti málatilbúnað ákæruvaldsins þar sem í ljós komi að símtöl sakbornings og verjanda hafi verið hlustuð. Komi aðhaldið ekki frá dómstólunum sjálfum sé óhjákvæmilegt að breyta lögum.

Ríkissaksóknari hefur ekki svarað fyrirspurnum Fréttablaðsins um þetta mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×