Innlent

Kveðjuræða Jóns Gnarr: „Þetta er búið að vera ævintýri“

Bjarki Ármannsson skrifar
Borgarfulltrúar fallast í faðma að loknu fjögurra ára samstarfi í Ráðhúsinu í gær.
Borgarfulltrúar fallast í faðma að loknu fjögurra ára samstarfi í Ráðhúsinu í gær. Vísir/Daníel
Síðasti fundur borgarstjórnar Reykjavíkur fyrir meirihlutaskipti fór fram í gær. Fundinum lauk á kveðjuræðu Jóns Gnarr, fráfarandi borgarstjóra, en í henni fór hann fögrum orðum um félaga sína í borgarstjórn og sagðist „maður að meiri“ eftir að hafa fengið að starfa með þeim.

„Ég vil líka biðja ykkur afsökunar á þeim tímum sem ég hef hugsanlega sært eitthvert ykkar með ómálefnalegri gagnrýni eða með því að alhæfa eitthvað sem átti ekki við rök að styðjast,“ sagði Jón við samstarfsmenn sína. „Það var ekki við mig að sakast heldur heilann í mér.“

Hann þakkaði sérstaklega félögum sínum í Besta flokknum, sem hverfur nú úr borgarstjórn.

„Takk kærlega fyrir að gera þetta með mér,“ sagði Jón. „Þetta er búið að vera ævintýri og ég þakka ykkur hverju og einu.

Samstarfið hefur verið mjög gott og ég vil segja að ég ber engan kala til nokkurs manns, lít ekki á nokkurn hér sem óvin eða óvildarmann.“

Þrátt fyrir að mikið hafi verið um þakkir og kveðjur á fundinum, minnti Jón á að sitjandi borgarstjórn lætur ekki formlega af störfum fyrr en eftir rúma viku.



„Ég „er hann“ enn þá,“ sagði Jón. „Það er enn þá verið að „tagga“ mig á Facebook þegar fólk vill kvarta yfir einhverju. Ég lít svo á að starfi mínu sé ekki lokið fyrr en fólk hættir að „tagga“ mig á myndum af gubbi á Snorrabraut.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×