Innlent

Reyna að komast í ráð og nefndir

Freyr Bjarnason skrifar
Manna þarf margar nefndir og mörg ráð í Reykjavíkurborg á næstu dögum.
Manna þarf margar nefndir og mörg ráð í Reykjavíkurborg á næstu dögum. Fréttablaðið/GVA
Á aukafundi borgarstjórnar sem stefnt er á að halda 16. júní, þegar ný borgarstjórn tekur formlega við völdum, verður gengið frá kjöri í hin ýmsu ráð og nefndir. Einnig verða kosnir fulltrúar í stjórnir fyrirtækja sem Reykjavíkurborg á aðild að.

„Samkvæmt lögum tekur nýkjörin sveitarstjórn við störfum fimmtán dögum eftir kjördag. Það er mánudagurinn 16. júní. ,“ segir Helga Björk Laxdal, skrifstofustjóri borgarstjórnar aðspurð.

„Væntanlega eru allir byrjaðir að undirbúa hvernig þeir ætla að manna nefndir og ráð. Menn eru búnir að setjast niður og reikna út hvað þeir eiga mörg sæti,“ segir Helga, sem mun í framhaldinu sjá til þess að kynjahlutföll séu rétt í hverju ráði og nefnd fyrir sig.

Borgarfulltrúar, fólk sem hefur verið á framboðslistum stjórnmálaflokka og aðrir sem hafa ekki verið á þeim situr í þessum ráðum og nefndum.

Á fundinum 16. júní verða þrír kjörnir í stjórn Faxaflóahafna, fimm í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, þrír í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, einn í stjórn Sorpu og einn til viðbótar í stjórn Strætó bs.

Ráðum á vegum Reykjavíkur er skipt í fjóra flokka. Þau stærstu eru í flokki eitt og fyrir þau eru greidd 20 prósent af þingfarakaupi, eða um 126 þúsund krónur á mánuði. Í þeim flokki eru borgarráð, skipulags- og umhverfisráð, skóla- og frístundaráð og velferðarráð.

Sextán prósent af þingfarakaupi eru greidd fyrir setu í flokki tvö, eða um 100 þúsund krónur. Í honum eru forsætisnefnd, íþrótta- og tómstundaráð, mannréttindaráð og menningar- og ferðamálaráð.

Í flokki þrjú eru greidd 14 prósent af þingfarakaupi fyrir nefndarsetu, eða tæp 90 þúsund. Heilbrigðisnefnd og innkauparáð eru í þeim flokki.

Í fjórða flokknum eru hverfisráðin, stjórnkerfisnefnd (ef ákveðið er að hún starfi) og stjórn Listahátíðar í Reykjavík. Sex prósent af þingfarakaupi eru greidd fyrir aðild að þeim, eða tæpar 38 þúsund krónur.

Formenn hverrar fastanefndar fá tvöfalda þóknun og gildir það um kjörna fulltrúa aðra en borgarfulltrúa.

Varamenn fá greidd laun fyrir hvern fund sem þeir sitja og nema Ai 1,95 prósentum af þingfarakaupi. Það gera rúmar 12. þúsund fyrir hvern fund.

Hálf milljón í grunnlaun

Því fleiri borgarfulltrúar sem eru í hverju ráði, þeim mun lægri er launakostnaður ráðsins sjálfs, vegna þess að allar fundarsetur eru innifaldar í grunnlaunum þeirra. Launin nema 77,82 prósentum af þingfarakaupi, eða 490.285 krónum.

Ýmsar reglur um álag eða skerðingu eru til staðar eftir því hvað menn sitja í mörgum nefndum en til að fá grunnlaunin þurfa borgarfulltrúar að sitja í a.m.k. einni nefnd í flokki eitt. Ef ekki eru launin skert um 50 prósent. Til að fá 25 prósent álag þurfa þeir að sitja í a.m.k. þremur fastanefndum eða að vera formenn í slíkri nefnd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×