Innlent

Sturla verður bæjarstjóri á ný

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Sturla á að baki sér langan feril í stjórnmálum.
Sturla á að baki sér langan feril í stjórnmálum. Vísir/GVA
H-listi framfarasinnaðra Hólmara hlaut 56,7% atkvæða í sveitarstjórnarkosningunum á laugardag.

Slík kosning gefur listanum fjóra menn í bæjarstjórn, sem nægir til að mynda hreinan meirihluta.

Sturla Böðvarsson, sem áður gegndi embætti bæjarstjóra í Stykkishólmi á árunum 1974-1991, var í fjórða sæti listans, en einnig var hann bæjarstjóraefni hans.

Þar eð listinn myndar hreinan meirihluta er víst að Sturla verður bæjarstjóri Stykkishólms á ný, eftir hlé frá stjórnarstörfum sem varað hefur í næstum aldarfjórðung.

Mótframboð H-listans, L-listinn, hlaut 43,3% atkvæða, og fær listinn því þrjá menn í bæjarstjórn.

Dóttir Sturlu, Ásthildur Sturludóttir, er bæjarstjóri í Vesturbyggð, en þar var listi sjálfstæðismanna sjálfkjörinn. Verður þetta í fyrsta sinn sem feðgin gegna embætti bæjarstjóra samtímis.

Alls voru 826 manns á kjörskrá í Stykkishólmi og kjörsókn var 87,3%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×