Innlent

18 ára valdasetu Sjálfstæðisflokks lokið

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Oddviti Í-listans telur Ísfirðinga hafa viljað breytingu.
Oddviti Í-listans telur Ísfirðinga hafa viljað breytingu. vísir/Pjetur
Gísli Halldór Halldórsson verður bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar en hann var bæjarstjóraefni Í-listans sem náði hreinum meirihluta í kosningunum.

Gísli er starfandi formaður bæjarráðs fyrir Sjálfstæðisflokk. Hann bauð sig þó ekki fram í prófkjöri flokksins í vetur og hefur sagt ástæðuna vera skort á samhljómi við aðra sjálfstæðismenn. Í kjölfarið tilkynntu hann og Arna Lára Jónsdóttir, oddviti Í-flokksins, að hann yrði bæjarstjóraefni flokksins en hann tók þó ekki sæti á listanum.

„Hann hefur langa reynslu af sveitarstjórnarmálum og við treystum honum mjög vel til verksins,“ segir Arna Lára en aldrei kom til greina að hún yrði sjálf bæjarstjóraefni flokksins.

Arna Lára er að vonum ánægð með niðurstöður kosninganna enda í fyrsta skipti í átján ár sem Sjálfstæðisflokkurinn nær ekki meirihluta í bæjarstjórn. Hún segist telja að fólk hafi verið tilbúið í breytingar og að flokkurinn muni byrja á að einbeita sér að atvinnu- og fræðslumálum bæjarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×