Innlent

Meirihlutaviðræður hefjast í dag

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Dagur B. Eggertsson og Sóley Tómasdóttir hittust öll saman í fyrsta skipti í gær eftir kosningar í sjónvarpsútsendingu Stóru málanna.
Björn Blöndal, Halldór Auðar Svansson, Dagur B. Eggertsson og Sóley Tómasdóttir hittust öll saman í fyrsta skipti í gær eftir kosningar í sjónvarpsútsendingu Stóru málanna. Vísir/Vilhelm
Oddvitar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata hittust í fyrsta skipti, eftir að niðurstöður kosninganna lágu fyrir, í sjónvarpsútsendingu í gærkvöldi. Engar eiginlegar meirihlutaviðræður höfðu farið fram, aðeins var komin fram viljayfirlýsing frá flokkunum um meirihlutasamstarf í borginni.

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar, og S. Björn Blöndal, oddviti Bjartrar framtíðar, höfðu gefið það skýrt út að vilji væri fyrir tveggja flokka samstarfi flokkanna. Þegar lokatölur komu frá borginni klukkan sjö í gærmorgun kom þó í ljós að meirihlutinn væri fallinn og því var leitað til Pírata og Vinstri grænna, en báðir flokkar fengu einn borgarfulltrúa. Slíkur meirihluti skilar því níu borgarfulltrúum.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, fagnar með Degi B. Eggertssyni, oddvita flokksins í Reykjavík, á kosningavöku í Stúdentakjallaranum eftir að fyrstu tölur birtust.vísir/Daníel
Samfylking stærsti flokkurinn

Samfylkingin náði sögulega góðum árangri í borginni með 31,9 prósenta hlutfalli og er þar með stærsti flokkurinn í borgarstjórn. Dagur segir að fastlega sé gert ráð fyrir að hann taki borgarstjórastólinn en öðrum embættum hefur ekki verið úthlutað. 

„Ég vil að allir fulltrúar vinni að sameiginlegri sýn og ég hef trú á að þessir fjórir flokkar finni hana. Varðandi úthlutun embætta þá finnst mér mikilvægast að allir borgarfulltrúar fái verkefni við hæfi og fái að njóta sín. Slíkt samstarf er mikilvægt og árangursríkt.“ 

Vonbrigði Bjartrar framtíðar

Björn tekur undir orð Dags um vænlegt samstarf flokkanna fjögurra þótt hann geti ekki leynt vonbrigðum sínum með kosningaúrslitin. Björt framtíð fékk eingöngu tvo borgarfulltrúa, en Besti flokkurinn fékk sex í síðustu kosningum. 

„Fjölmiðlar hafa fyrst og fremst fjallað um einn flokk í aðdraganda kosninganna. Það er ekkert stórmál að vekja ótta, það er mun auðveldara en að vekja traust og öryggi. Ég hef áhyggjur af gengi Framsóknarflokksins í því samhengi og dræmri kjörsókn.“ 

Halldór Auðar Svansson, oddviti Pírata
Málefnin mikilvægust

Eitt af helstu baráttumálum Sóleyjar Tómasdóttur, oddvita Vinstri grænna, hefur verið að gera leikskóla gjaldfrjálsa. Mun hún slaka á þeim kröfum í meirihlutaviðræðum?

„Ég legg vissulega meiri áherslu á málefnin en embætti í borgarstjórn. Ég mun því fylgja mínum málefnum eins vel eftir og ég get."

Halldór Auðar Svansson, oddviti Pírata, segir að grunnstefna Pírata verði sett á oddinn í meirihlutaviðræðum. 

„Beint lýðræði, gegnsæi og sjálfsákvörðunarréttur íbúa eru okkar helstu málefni,“ segir Halldór. 

Góður flötur á samstarfi

Dagur segir ekki hafa komið til greina að hefja meirihlutaviðræður við Sjálfstæðisflokk. Hann segir samvinnu við frjálslynda fulltrúa flokksins hafa gengið vel en ekki við aðra á lista þeirra.

Halldór Halldórsson, oddviti sjálfstæðismanna, segist ekki geta svarað fyrir mat Dags á flokknum en hann telur að góður flötur sé á samstarfi við Samfylkinguna. 

„Það hefði verið einfaldasti kosturinn í stöðunni. Ég er meðal þeirra frjálslyndu sem hann ræðir um og það væri vel hægt að koma upp málefnaskrá sem sátt væri um.“

Sveinbjörg B. Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknarflokks
Gott gengi Framsóknar

Nokkrir oddvitar flokkanna hafa opinberlega lýst því yfir að ekki sé áhugi á að starfa með Framsóknarflokki í meirihluta. Helsta ástæðan sem gefin er upp er andstaða flokksins við byggingu mosku í Reykjavík.

Framsóknarflokkurinn náði eingöngu 2,7 prósenta fylgi í síðustu sveitarstjórnarkosningum en fékk tæpra 15 prósenta fylgi nú og tvo borgarfulltrúa. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×