Innlent

Hjólreiðagarpar boða vetrarlok

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Hjólreiðagarpar. Talið frá vinstri eru á myndinni Geir Ómarsson, Bjarki Freyr Rúnarsson, Ágúst Kristinsson, Kristrún Lilja Júlíusdóttir, Fjalar Jóhannsson, Erlendur Birgisson og Trausti Valdimarsson.
Hjólreiðagarpar. Talið frá vinstri eru á myndinni Geir Ómarsson, Bjarki Freyr Rúnarsson, Ágúst Kristinsson, Kristrún Lilja Júlíusdóttir, Fjalar Jóhannsson, Erlendur Birgisson og Trausti Valdimarsson. Fréttablaðið/Vilhelm
Fjöldi fólks í nokkrum hjólreiðafélögum á höfuðborgarsvæðinu nýtti tækifærið til útivistar fyrri part sunnudags og hjóluðu margir á Þingvelli og heim aftur frá Reykjavík, um hundrað kílómetra alls.

Meðal þeirra sem lögðu á Mosfellsheiði í blíðunni á sunnudag eru nokkrir félagar úr Ægi 3, þríþrautardeild sundfélagsins Ægis.

„Einstaka naglar hafa verið að fara upp á Mosfellsheiði og jafnvel alla leið á Þingvelli þegar aðstæður hafa leyft, en þetta var fyrsta hópferð vorsins,“ segir Jens Viktor Kristjánsson, formaður og þjálfari hjá Ægi 3.

Útiæfingar hafi alla jafna hafist fyrir alvöru um eða upp úr mánaðamótum mars-apríl, en nú taldi hann mega slá því föstu að veturinn væri að baki.

„Við vorum þarna örugglega um hundrað manns á ferðinni, veður gott og auðar götur.“

Aðstæður segir Jens að hafi verið verið kjörnar, en bílaumferð helst til mikil. „Það voru allir að fara á skíði í Skálafell á sama tíma.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×