„Ég veit ekki með tengslin en ég tel það mjög vafasamt að aukinn músagangur stafi af gasmengun. Stofninn getur verið stærri núna út af mildari vetrum og er það líkleg ástæða fyrir því að þetta er meira vandamál núna en áður,“ segir Jón Már Halldórsson, meindýraeyðir á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi.
Hann segir að útköllum hafi fjölgað talsvert að undanförnu á milli ára. „Ég er nú að sinna á bilinu tíu til tuttugu útköllum á viku, sem er um það bil 300 prósenta aukning á milli ára ef ég reikna þetta gróflega,“ segir Jón Már.

Á höfuðborgarsvæðinu hefur að undanförnu mest verið um músagang í Garðabæ, á Álftanesi og í Hafnarfirði. Jón Már segir skýringuna á því líklega vera nándina við hraunið.
Guðmundur Ögmundsson, aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar í Skaftafelli, segist ekki finna fyrir auknum músagangi í þjóðgarðinum. „Það er auðvitað einhver músagangur hérna á haustin en ekkert í okkar í húsum. Það hefur ekki verið nein gasmengun hjá okkur og tel ég mengunina ekki vera ástæðu fyrir auknum músagangi,“ segir Guðmundur.