Rómantíska gamanmyndin Eyjafjallajökull er opnunarmynd frönsku kvikmyndahátíðarinnar sem hefst í Háskólabíói 17. janúar. Hún skartar leikurunum Valérie Bonneton og Danny Boon í aðalhlutverkum en þau eru miklar stjörnur í heimalandinu og leika í myndinni fráskilin hjón sem ætla að vera viðstödd brúðkaup dóttur sinnar í apríl 2010.
Þegar Eyjafjallajökull byrjar að gjósa er flugi þeirra aflýst og þau velja að fara landleiðina á bílaleigubíl. Gallinn er hins vegar sá að hjónin fyrrverandi hatast innilega. Leiðin frá Frakklandi til Grikklands, þar sem brúðkaupið er haldið, er löng og á ferðalaginu gerist ýmislegt.
Franska kvikmyndahátíðin stendur til 30. janúar. Hægt er að kaupa fimm mynda afsláttarpassa.

