Innlent

Tveggja ára bið verður enn lengri vegna verkfalls

Hjörtur Hjartarson skrifar
Biðlistar lengjast ár frá ári og fjöldi þeirra sjúklinga, sem bíða í þrjá mánuði eða lengur eftir að komast í aðgerð, fer fjölgandi.

Tæplega 1800 manns bíða eftir aðgerð á augasteini, 138 eftir hjarta eða kransæðaaðgerð, um 650 manns eftir gerviliðaaðgerð og um 90 konur eru á biðlista eftir legnámsaðgerð.

Einn þessara sjúklinga er Erling Magnússon en hann hefur þurft að bíða í ríflega tvö ár eftir því að komast í hjartaaðgerð.

„Það er farið inn í hjartað og mér skilst að það sé stungið þar á milli hjartahólfa og brennt fyrir æðar sem koma inn í hjartað, þetta er í rauninni eins og rafsuða. Það er brenndur hringur í kringum þessar æðar og það á að stoppa einhver auka rafboð sem eru að koma inn í hjartað og eru að rugla það.“

Erling segir að hjartagallinn hái honum mikið. Hann verði oftsinnis fyrir andnauð, hvort heldur við áreynslu eða í kyrrstöðu. Þá sofi hann oft á tíðum illa og jafnvel ekkert. Hann átti tíma á þriðjudaginn en verkfallið kom í veg fyrir að aðgerðin færi fram.

Þetta hlýtur aðvera mjögóþægileg tilfinning að þurfa aðbíða svona lengi?

„Já, ég get ekki neitað því, það er það. Ég hefði alveg vilja fara í þetta miklu fyrr. Hættan er aðallega sú hjá mér að þetta getur skapað svona tappa, að blóðið storkni í hjartanu því það er ekki að dæla eins og það á að gera. Og það getur farið upp í haus og upp í heila og þá er maður kominn með heilatappa og getur lamast. Bróðir minn lenti í svona áfalli og er lamaður í dag. Þetta er svona ættgengur kvilli þannig að ég hef oft hugsað um það að maður er í talsvert mikill áhættu.“

Erling hefur ekki fengið nýjan tíma fyrir aðgerðina en hann vonast til að það dragist ekki úr hófi fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×