Innlent

Klói er orðinn köttaður

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Hér má sjá breytingarnar á Klóa.
Hér má sjá breytingarnar á Klóa. Samsett mynd/MS
Kötturinn Klói, sem hefur verið utan á Kókómjólkurfernum í um aldarfjórðung, er nú orðinn massaður. Uppskriftin að Kókómjólkinni er þó alltaf sú sama, þrátt fyrir að upplýsingar um næringainnihald hafi breyst.

Við breytingar á útliti fernunnar voru breytingar gerðar á upplýsingum sem gefnar eru upp í næringainnihaldi drykksins. Upplýsingarnar eru reiknaðar upp úr nýjum mælingum á mjólkurhráefni.

„Við gerum allar breytingar á Klóa af mikilli varfærni,“ segir Baldur Jónsson, verkefnastjóri hjá Mjólkursamsölunni.

Íslenska auglýsingastofan sá um breytingarnar á Klóa. „Umbúðum hefur verið breytt reglulega til að færa vöruna til nútímans en uppskriftin er alltaf sú sama,“ bætir Baldur við.

Hér má sjá samanburð á fernunum og upplýsingum um næringainnihald.Mynd/DÞG
Uppskriftinni ekki breytt

Þegar nýju fernurnar voru kynntar fyrir skömmu vakti það athygli að upplýsingar um næringainnihald höfðu breyst.

Á nýju fernunum kemur t.d. fram að 68 kaloríur séu í 100 grömmum af Kókómjólk, sem er einni kaloríu meira en áður.

Uppgefið hlutfall próteins og kolvetna á nýju fernunum var einnig hærra en á þeim gömlu.

Dr. Björn S. Gunnarsson, vöruþróunarstjóri MS segir uppskriftina ekki hafa breyst. Upplýsingarnar á nýju fernunum eru í samræmi við nýjar mælingar á mjólkurhráefni og munurinn er innan skekkjumarka.

Klói á besta aldri

Kókómjólkin kom á markað árið 1973.

„1990 eða fyrir 24 árum hoppaði síðan Klói inn á pakkningarnar,“ segir Baldur Jónsson. Klói var upphaflega teiknaður af Jóni Axeli Egilssyni kvikmyndagerðarmanni.

Fyrstu ellefu árin sem Klói var á Kókómjólkurfernuninni hélst hann óbreyttur. Eftir breytingarnar varð Klói aðeins unglegri að sögn Baldurs.

„Þá var höfundarréttur keyptur af Jóni Axeli. Hvíta Húsið hafði þá unnið að endurhönnun umbúða og andlitslyftingu á Klóa sem voru svo teknar í gagnið 2001. Mikil undirbúningsvinna var unnin áður en þeim breytingum var hrint í framkvæmd,“ segir Baldur og bætir við:

„Við höfum alltaf farið varlega í breytingar á Klóa. Til dæmis voru auglýsingar með nýju útliti Klóa búnar að vera í gangi í tvö ár áður en við breyttum honum á fernunni.“

Gamli Klói.
Reglulegar breytingar

Eins og Baldur segir hefur Klóa og Kókómjólkurfernunum verið breytt reglulega eftir aldarmót.

„Í aðdraganda ársins 2014 var enn á ný unnið með útlit umbúða og Íslenska auglýsingastofan hefur unnið að umbúðabreytingum.“

Baldur segir að samhliða breytingum á útliti Klóa á Kókómjólkurfernunum verði búningi sem notaður er við markaðssetninguna líklega breytt.

„Klói hefur alltaf látið sjá sig annað slagið á skemmtunum. Búningurinn sem notaður var í það var nokkuð þungur og erfitt að athafna sig í honum. Nýi búningurinn verður miklu léttari og verður meira í ætt við fimleikabúning einhverskonar. Þeim sem koma fram í búningnum finnst það líklega mjög góð breyting,“ segir hann.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.