Eldurinn kviknaði í hvalalíkani sem iðnaðarmenn unnu við að setja upp í dag. Líkanið var það síðasta af 23 sem unnið hafði verið að hörðum höndum undanfarnar vikur að setja upp. Líkönin voru allt frá metra löng upp í rúmlega 20 metra löng. Sýningin átti að hefjast á fimmtudaginn og var sögð sú stærsta sinnar tegundar í Evrópu. Sjóðurinn Icelandic Tourism Fund (ITF) og athafnamaðurinn Hörður Bender eru á bak við verkefnið en miklu hafði verið tjaldað til.

Talið er mögulegt að kviknað hafi út frá rafsuðu en það hefur ekki fengist staðfest. Líkönin eru úr plastefni sem fuðraði upp. Tveir iðnaðarmenn voru fluttir á sjúkrahús vegna minniháttar áverka. Lögregla tók skýrslu af iðnaðarmönnunum og verið er að rannsaka hvað úrskeiðis fór.
Forsvarsmenn sýningarinnar voru í miklu áfalli og rétt að átta sig á stöðu mála eins og einn þeirra orðaði það. Vildu þau ekki gefa kost á viðtali að svo stöddu. Einn viðmælenda Vísis á svæðinu orðaði það svo að þetta væri mikið spark í punginn. Miklu hefði verið til tjaldað og eftirvæntingin mikil fyrir sýningunni sem hefði verið á heimsmælikvarða. Sýningin átti að hefjast á fimmtudaginn.

