Innlent

Kviknað í Hvalasýningunni

Samúel Karl Ólason skrifar
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út í dag vegna elds sem kviknaði í líkani á Hvalasýningunni á Granda. Allt tiltækt lið slökkviliðs auk lögreglu og sjúkrabíl var sent á vettvang. Eldur var aldrei sjáanlegur að utan en hins vegar lagði mikinn svartan og eitraðan reyk frá húsnæðinu ásamt mikillri og vondri lykt. Reykkafarar hafa verið sendir inn í húsið.

Uppfært 16:40

Fyrst var talað um Hvalasafn í fréttinni, en um er að ræða Hvalasýningu, sem er sú stærsta sinnar tegundar í Evrópu.

Talið er að eldurinn hafi kviknað í einu hvalalíkani, en slökkvistarf gengur vel. Úðarakerfi er í húsinu sem fór ekki sjálft í gang og slökkviliðsmenn þurftu að setja það sjálfir í gang.

Uppfært 16:48

Sverrir Björn Björnsson, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, segir að búið sé að slökkva eldinn og að það hafi gengið vel. Hins vegar muni taka tíma að reykræsta, enda sé hátt til lofts og reykurinn sé kolsvartur og baneitraður.

Hann telur að um töluvert tjón sé að ræða, enda geri reykurinn allt kolsvart í húsnæðinu.

Eldsupptök eru ókunn en iðnaðarmenn voru við störf í húsnæðinu við að setja sýninguna upp þegar eldurinn kom upp.

Getgátur eru uppi um að eldurinn hafi kviknað út frá rafsuðu, en það er ekki ljóst. Tveir iðnaðarmenn voru sendir í læknisskoðun eftir brunann.

Til stóð að sýningin yrði opnuð á fimmtudaginn.

Uppfært 17:10

Af þeim 23 hvalalíkönum sem sýna átti í húsinu, var búið að setja upp 22. Eldurinn kviknaði í síðasta líkaninu eftir margra mánuða undirbúning.

Slökkviliðsmenn eru nú búnir að rjúfa þak hússins til að hjálpa til við reykræstingu.

Vísir/Ólöf
Vísir/Tumi
Vísir/Tumi



Fleiri fréttir

Sjá meira


×