Innlent

Stormur á vestanverðu landinu

Bjarki Ármannsson skrifar
Þessi mynd var tekin við Grundarfjarðarhöfn fyrir stuttu.
Þessi mynd var tekin við Grundarfjarðarhöfn fyrir stuttu. Mynd/Tómas Logi Hallgrímsson
Gríðarmikið hvassviðri gengur nú yfir vestanvert landið og má jafnvel tala um storm. Að sögn Veðurstofu Íslands hefur vindhraði á norðanverðu Snæfellsnesi mælst 25 til 30 metrar á sekúndu.

Þar sem hlýnað hefur samhliða rokinu og hiti farið upp í eitt til fimm stig, fylgir hvassviðrinu nú slydda og rigning.

Á Grundarfirði hefur vindhraði farið upp í 28 metra á sekúndu en meðfylgjandi mynd er tekin við Grundarfjarðarhöfn fyrir stuttu.

„Að vera í bílnum niðri við höfn var bara eins og að vera í bílaþvottastöð,“ segir Tómas Logi Hallgrímsson sem tók myndina, en flóð er um þessar mundir í Grundarfirði. 

Vindhraði er einnig mikill á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli en þar hefur hann mælst heilir 40 metrar á sekúndu í sviptingum. Að sögn Veðurstofu mun stormurinn að mestu herja á Norðvesturland í nótt og fram á morgun.

Uppfært: Meðfylgjandi myndband tók Tómas Logi upp við Grundarfjarðarhöfn og setti á vefsíðuna YouTube. Það gefur nokkuð góða mynd af aðstæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×