Innlent

Stór vandi óleystur í skólpmálum á verndarsvæði Þingvallavatn

Linda Blöndal skrifar
Tæplega 700 sumarhúsaeigendum á vatnsverndarsvæðinu var árið 2006 gert að bæta úr frárennslismálum. Síðan þá hafa verið gefnir tveir frestir því enginn hefur í raun vitað hvernig ætti að framkvæma úrbæturnar og eigendur húsanna gagnrýna að eftirlit og skipulag um rotþrær vanti. Byggð er á fjórtán stöðum á verndarsvæðinu og um þriðjungur jarðanna er í ríkiseigu. Frestur til úrbóta er núna til ársins 2020 en þangað til má vænta að meira verði mengað en reglur segja til um.

Meiri kröfur á Þingvöllum

Það er aðkallandi að bæta úr frárennslismálum en gerðar eru meiri kröfur til sumarhúsaeigendur við vatnið. Reglugerð frá árinu 2006 númer nr.650/2006  kveður á um að beita eigi ítarlegri hreinsun en venjulegri tveggja þrepa hreinsun, til dæmis að safntankar yrðu tæmdir reglulega. Þannig mætti minnka köfnunarefnis- og saurgerlamengun vegna fráveitu á verndarsvæði vatnsins.

Ekkert hugsað út í framkvæmdina

„Vandamálið í þessu er að það er ekki búið að hugsa hvernig eigi að framkvæma þetta. Það voru sett lög árið 2005 og svo reglugerð ári seinna með ákvæði sem felur í sér að það þarf að skipta um fráveitukerfi í öllum húsum við Þingvallavatn, að minnsta kosti 700 húsum og það var ekkert hugsað út í hvernig ætti að fara að þessu“, sagði Pétur Ingi Haraldsson, skipulagsfulltrúi Bláskógabyggðar í frétt Stöðvar tvö í kvöld um málið.

Tilgangslaust að setja reglur sem ekki er hægt að fara eftir

„Það er ekki nóg að hafa metnaðarfullt lagaákvæði það þarf að hugsa út í framkvæmdina án þess er þetta tilgangslaust“, segir hann.

„Það hafa nokkrir sumarbústaðaeigendur, sérstaklega þeir sem eru að byggja ný hús hafa keypt sér fínni rotþró ef svo má segja en þegar fólk leitar til okkar á skipulagssviði og spyr hvað þetta þýðir að þá vitum við það ekki því við erum ekki sérfræðingar í þessu og það hafa ekki verið nægjanlega skýr svör um hvað fólk eigi að gera. Þetta er mjög umfangsmikið verkefni og örugglega upp á mörg hundruð milljónir.  og það er ekki bara búið að spá í hvernig eigi að gera þetta og hverjir eiga að borga þetta og svo framvegis“, bendir Pétur Ingi ennfremur á.

Kallar á ólíkar lausnir

Svæðið í kringum þingvallavatn er mjög ólíkt og sum hús standa á klöpp en önnur á jarðvegi og það kallar á ólíkar lausnir. Erfitt er að sjá hvernig eigi að fá  eigendur bústaðanna til að fara í dýrar framkvæmdir.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands komst nýverið að þeirri niðurstöðu að nær ekkert þeirra tæplega sjö hundruð sumarhúsa uppfyllti settar kröfur og mun starfshópur á vegum eftirlitsins skila skýrslu um málið um næstu mánaðarmót.

Viðmælendur Stöðvar tvö hafa sagt málið mun flóknara en menn gerðu sér grein fyrir og nú ríkir alger óvissa um hvernig á að bæta úr frárennslismálum og hver á að borga fyrir það. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×