Innlent

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu höfðar til heimsins

Birta Björnsdóttir skrifar

Tugþúsundir manna víða um heim fylgjast með daglegum störfum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ástæðan er virkni laganna varða á samskiptamiðlum, en lögreglumenn telja mikilvægt að gera starfstéttina aðgengilegri almenningi með þessum hætti.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur undanfarin ár haft það að markmiði að vera sem aðgengilegust landsmönnum gegnum samskiptamiðla. Fyrir stuttu fór svo virkni lögreglunnar á myndaveitunni Instagram að vekja athygli út fyrir landsteinanna.

„Það birtist rússneskt blogg um okkur í síðustu viku og þaðan byrjaði boltinn að rúlla. Svo virðist önnur stór vefsíða í Rússlandi taka þetta upp og þaðan rataði þetta bara út um allan heim," segir Þórir Ingvarsson, rannsóknarlögreglumaður.

Og alheimsathyglin skilar sér í því að sífellt bætist í hóp þeirra sem fylgjast með löggunni á Instagram.

„Jú á viku hafa um 30 þúsund bæst við, fóru úr 10 þúsund í 40 þúsund," segir Stefán Fróðason, lögreglumaður.

Og það eru ekki bara Rússar sem hafa áhuga á lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, þeir hafa einnig vakið athygli á Ítalíu, Serbíu, Bretlandi og víðar.

Þórir segir þetta hafa komið þeim á óvart.

„En það sem er ánægjulegt við þetta er að fólk er að taka vel á móti því efni sem við erum að birta. Ég held að fólki finnist gaman að sjá hvað við erum að fást við."

Þeir Stefán og Þórir segja þetta sannarlega auka starfsánægju hjá lögreglunni.

„Já það gerir það," segir Stefán. " Það er gaman að brjóta vinnudaginn upp með því að reyna að hugsa upp eitthvað skemmtilegt til að deila með þjóðinni.

Þeir Stefán og Þórir segja samskiptamiðlana breyta ímynd fólks af lögreglunni að einhverju leyti.

„Markmiðið er að gera lögregluna aðgengilegri," segir Stefán.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.