Innlent

Tekinn tvisvar fyrir hraðakstur á einum klukkutíma

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Pjetur
Alls voru 39 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum í síðustu viku. Það sem vakti athygli lögreglu var þó þegar sami ökumaðurinn var kærður fyrir hraðakstur með klukkustundar millibili í gær.

Í fyrra skiptið var hann mældur á 112 kílómetra hraða í Vatnsfirði í Ísafjarðardjúp. Því næst var hann stöðvaður í Staðardal, þá einnig á 112 kílómetra hraða.

Samanlagt mun þetta ferðalag kosta ökumann bílsins 60 þúsund krónur í sektir.

Þrír ökumenn voru kærðir fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna, í öllum tilfellum í Skutulsfirði. Þar voru tveir ökumenn teknir fyrir akstur undir áhrifum áfengis.

Tilkynnt var um sjö umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar í vikunni, en engin alvarleg slys hlutust af þessum óhöppum.

Einn ökumaður var kærður fyrir að aka öfugt í gegnum hringtorg. Í dagbók lögreglunnar segir að hann hafi ekið hratt og ógætilega í gegnum torgið. Þetta mun hann hafa gert til að komast hjá umferðartöfum, en hann má búast við sekt.

„Lögreglan á Vestfjörðum var með aukinn viðbúnað vegna þess fjölda sem sótti Vestfirði heim.  Umferðareftirlit var aukið og telur lögreglan að það hafi átt sinn þátt í því að engin teljandi umferðaróhöpp urðu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×