Innlent

Sex aðilar teknir með fíkniefni á Ísafirði

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Pjetur
Lögreglan á Vestfjörðum hafði afskipti af sex aðilum sem voru með fíkniefni í fórum sínum. Í einu tilviki er ætlað að um efni sem ætluð voru til drefingar sé um að ræða. Á föstudagskvöldinu var tilkynnt um tvö slagsmál á Ísafirði, sem bæði voru afstaðin þegar lögreglumenn komu á vettvang. Í hvorugt skiptið hlutust meiðsl af.

Þá voru tveir menn handteknir í miðbæ Ísafjarðar sömu nótt. Í dagbók lögreglu segir að þeir hafi verið mjög ölvaðir og æstir og að þeir hafi ekki farið eftir fyrirmælum lögreglu. Því voru þeir vistaðir í fangaklefa og víman látin renna af þeim.

Í dagbókinni segir að fíkniefnahundur lögreglunnar á Vestfjörðum, Tindur, hafi sinnt sínum verkum vel. Lögreglan segir einnig að mótshaldarar Mýrarboltans, gæslufólk, starfsmenn veitingastaða, umsjónarmenn tjaldstæða og aðrir sem að samkomunni stóðu hafi staðið sig vel.

Að morgni föstudagsins var tilkynnt um ferðamann sem hafði misst vatn yfir sig í Grunnavík. Björgunarsveitarmenn frá Ísafirði sóttu manninn og fluttu hann til aðhlynningar á sjúkrahúsið á Ísafirði.

Þá barst hjálparbeiðni frá göngumanni sem hafði hrasað í Ystu hvilft í Súgandafirði á sunnudagskvöldið. Sá var einnig sóttur af björgunarsveitarmönnum en talið var að hann hafi fótbrotnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×