Hildur segir að æfingin hafi staðið allan daginn og að framundan séu frekari æfingar. „Þetta er þá teymi sem myndi koma til með að sjá um sjúklinginn ef hann kæmi. Þetta er um 35 manna hópur – um tíu læknar, 22 hjúkrunarfræðingar, tveir sjúkraliðar og einn geislafræðingur. Þetta er ekki endanlegt, en þetta er hópurinn sem var boðaður á þessa æfingu.“
Teymið hlýddi á fyrirlestra um morguninn um allt mögulegt. „Um hlífðarbúnaðinn, umgengni og alls konar öryggisatriði. Þeir fengu líka fyrirlestur frá Mögnu Ólafsdóttur sem kom sérstaklega frá Genf til að ræða við okkur. Hún er starfsmaður Rauða krossins og er að þjálfa fólk sem er að fara til starfa til Afríku. Svo voru verklegar æfingar í að klæðast og afklæðast þessum hlífðarbúnaði,“ segir Hildur.
Hildur segir að framundan séu svo áframhaldandi æfingar. „Þessa viku eiga allir í teyminu að koma að minnsta kosti einu sinni, helst tvisvar, á Landakot til að klæða sig í hlífðarbúnaðinn og afklæðast svo aftur. Síðan verða fleiri fyrirlestrar. Við þurfum reglulega að koma saman til að klæðast og afklæðast þessum hlífðarbúnaði. Það er það er flóknast í þessu öllu saman.“
Hildur segir að þessu verði áfram haldið, að halda fólki í þjálfun, en vonast að sjálfsögðu til að þetta verði aldrei neitt meira en æfingar. „Við verðum þó að vera við öllu búin.“
Landspítalinn birti myndir á Facebook-síðu sinni af æfingu föstudagsins fyrr í dag. Vísir fékk góðfúslegt leyfi til að birta nokkrar myndanna, en Þorkell Þorkelsson á heiðurinn af myndunum.






