Innlent

Ritstjóraskipti eftir að ekki var fjallað um kynferðisbrotamál

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Búið er að skipta um ritstjóra á Eyjafréttum.
Búið er að skipta um ritstjóra á Eyjafréttum.
Breytingar hafa verið gerðar á ritstjórn Eyjafrétta eftir að ritstjóri miðilsins ákvað að fjalla ekki um dóm sem féll í héraði um miðjan nóvember. Karlmaður á fertugsaldri var þá dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn 15 ára gamalli systurdóttur eiginkonu sinnar. Maðurinn var sakaður um að hafa brotið gegn barnaverndarlögum með því að hafa ítrekað áreitt stúlkuna með kynferðislegu orðbragði á tímabilinu 3. janúar til 16. október árið 2012.

Vísir fjallaði um málið.

Ekkert var fjallað um málið á vef Eyjafrétta og voru fjölmargir Eyjamenn ósáttir af þeim sökum. Skapaðist töluverð umræða í athugasemdakerfi miðilsins við pistil eftir Gísla Valtýsson, fráfarandi ritstjóra miðilsins. Samkvæmt heimildum Vísis var hinn dæmdi starfsmaður Eyjafrétta en hefur nú látið af störfum. Fráfarandi ritstjóri tengist honum fjölskylduböndum.

Í tilkynningu frá stjórn Eyjasýnar, sem er eigandi Eyjafrétta, kemur fram að það hafi verið mistök að fjalla ekki um málið.

„Vegna athugasemda á Eyjafréttum.is og víðar um dóm yfir manni á fertugsaldri sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Suðurlands 12. nóvember sl. og birtur þann 18. nóvember á vef dómsins er rétt að það komi fram að sú ákvörðun Eyjafrétta að segja ekki frá málinu eftir að dómur var birtur voru mistök. Það þarf ekki að tíunda fyrir lesendum hver fréttin er. Unnið er að breytingum á ritstjórn og verða þær tilkynntar síðar í dag,“ segir í tilkynningunni sem var birt á vefnum á sunnudagskvöld.

Í kjölfarið birtist svo tilkynning á vefnum um að Ómar Garðarsson hefði tekið við sem ritstjóri og ábyrgðarmaður Eyjafrétta og Eyjafrétta.is.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×