Innlent

Þorvaldur Gylfason sýknaður í Hæstarétti

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Jón Steinar til vinstri og Þorvaldur til hægri.
Jón Steinar til vinstri og Þorvaldur til hægri.
Þorvaldur Gylfason var í dag sýknaður í  Hæstarétti í meiðyrðamáli sem Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttadómari, höfðaði gegn honum. Hæstiréttur staðfesti þar með dóm sem var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 11. febrúar á þessu ári. Vísir hefur greint ítarlega frá málinu.

Þegar dómur héraðsdóms var kveðinn upp í vetur sendi Jón Steinar frá sér yfirlýsingu. Hann sagði að með þeim dómi gætu menn að ósekju dylgjað um refsiverða háttsemi tiltekinna dómara við dómsýslu þeirra. Hann sagði einnig:

„Tilefni málsins voru ummæli Þorvaldar sem fólu í sér dylgjur um að Jón Steinar hefði með leynd samið kæru til Hæstaréttar vegna stjórnlagaþingskosninga og stjórnað afgreiðslu hennar. Með ummælunum dylgjaði Þorvaldur þannig um alvarleg brot Jóns Steinars í embætti sem dómari. Myndu þau hafa varðað hann starfsmissi og refsingu ef sönn væru,“ sagði Jón Steinar í yfirlýsingu og tilkynnti að hann myndi áfrýja honum til Hæstaréttar.

„Ef þessi dómur fær að standa geta menn framvegis án ábyrgðar og að ósekju dylgjað um refsiverða háttsemi tiltekinna dómara við dómsýslu þeirra. Sé þetta gildandi réttur í landinu er nauðsynlegt að almenningur fái vitneskju þar um.“

Fór fram á 2,5 milljónir í miskabætur

Jón Steinar fór fram á að Þorvaldur yrði dæmdur til refsingar fyrir ýmis ummæli sem fram koma í grein þess síðarnefnda „From Collapse to Constitution: The Case of Iceland“ í ritröðinni „CESifo Working Paper“ og þau dæmd dauð og ómerk. Jón Steinar fór fram á miskabætur upp á 2,5 milljónir króna auk 500 þúsunda og dráttarvaxta til að standa straum af kostnaði vegna birtingar dómsins í tveimur dagblöðum. Þá fór Jón Steinar fram á að Þorvaldur greiddi málskostnað.

Reimar Snæfells Pétursson, lögmaður Jóns Steinars, telur að ummæli Þorvaldar feli í sér ærumeiðingar og aðdróttanir; að hann hafi unnið verk sem varði embættismissi ef satt reynist. Sú ærumeiðing sé til þess fallin að rýra traust til hans í þeirri viðkvæmu stöðu sem hann gegndi.

Ummælin sem Jón Steinar reisti kæru sína á voru einkum þessi: „Þá gengur sá orðrómur meðal lögfræðinga, sem teljast til sérfræðinga í greiningu á lögfræðitextum hvers annars, að einn af dómurum Hæstaréttar, staðfastur flokksmaður áður en hann var skipaður dómari og þá tekinn fram fyrir þrjá hæfari umsækjendur samkvæmt áliti nefndar sem mat umsækjendur, hafi lagt drög að einni af kærunum sem Hæstiréttur, undir forystu sama dómara, nýtti sem átyllu til að ógilda kosningarnar. Ekki hafa þó verið færðar sönnur á þetta.“

Ummælin liður í umræðu um efnahagshrunið

Þorvaldur svaraði á móti að ummæli hans væru vernduð með tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. greinar mannréttindasáttmála Evrópu. Engar kringumstæður réttlæti takmarkanir á tjáningarfrelsi hans. Ummælin og greinin í heild hafi verið liður í áralangri opinberri umræðu um ástæður efnahagshrunsins, um dvínandi traust á stofnunum þjóðfélagsins og loks um vinnu við nýtt frumvarp.

Lögmaður Þorvaldar, Sigríður Rut Júlíusdóttir, benti jafnframt á að stjórnmálaumræða og umræða um þjóðfélagsleg málefni og almannahagsmuni njóti sérstakrar verndar. Bent er á að Þorvaldur sé fræðimaður og samfélagsrýnir, setið í stjórnlagaráði og einatt birt pistla um þjóðfélagsmál. Hann telur sig bera sömu skyldur og réttindi og fjölmiðlar til að upplýsa almenning um málefni sem eigi erindi til almennings og hafi frelsi eins og þeir til að tjá sig um slík málefni.

Dómsorð

Í dómi Hæstaréttar sem féll í dag segir:

„Ummæli gagnáfrýjanda [Þorvaldar Gylfasona] á blaðsíðu 16 í ritröð Háskólans í München voru endursögn af ummælum sem áður höfðu birst opinberlega. Við þau ummæli hafði gagnáfrýjandi uppi ákveðna fyrirvara, eins og rakið hefur verið. Voru ummælin sett fram í tengslum við málefni er þjóðfélagsleg umræða hafði spunnist um og skiptar skoðanir voru um.

Aðaláfrýjandi [Jón Steinar Gunnlaugsson] gaf kost á sér til trúnaðarstarfa í þágu almennings. Hefur hann á löngum starfsferli sínum, meðal annars á þeim tíma er hann var skipaður hæstaréttardómari, tekið virkan þátt í þjóðfélagsumræðu um ýmis málefni og verið talsmaður þess að dómarar verði að þola gagnrýni á störf sín á opinberum vettvangi.

Þegar alls þessa er gætt verður ekki séð að gagnáfrýjandi hafi með ummælum sínum vegið svo að æru aðaláfrýjanda að það hafi farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar samkvæmt 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrár. Með skírskotun til þess verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×