Innlent

Vill fá upplýsta umræðu um Evrópumál

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir að þjóðin verði að svara þeirri spurningu hvort hún vilji fara inn í evrusamrunann sem sé augljós og fyrirsjáanlegur. Fréttablaðið/GVA
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir að þjóðin verði að svara þeirri spurningu hvort hún vilji fara inn í evrusamrunann sem sé augljós og fyrirsjáanlegur. Fréttablaðið/GVA
„Það er rangt sem menn hafa haldið fram að það sé ekki hægt að hafa upplýsta umræðu um Evrópumálin og þá spurningu hvort Ísland eigi að vera aðili að sambandinu án þess að fyrir liggi samningur við ESB,“ segir Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. Illugi blés nýju lífi í ESB-umræðuna með ræðu sem hann hélt á Hrafnseyri á þjóðhátíðardaginn.

Illugi segir að menn séu allt of fastir í að ræða spurninguna hvernig Ísland eigi að aðlaga sig regluverki ESB.

„Við höfum ekki svarað því sem samfélag hvort við viljum fara inn í evrusamrunann sem er augljós og fyrirsjáanlegur. Það er verið að auka samruna innan evrusvæðisins meðal annars með því að stefna að meiri samruna ríkisfjármála evruríkjanna,“ segir Illugi og bætir við að Íslendingar verði að svara því hvort þeir vilji fara inn í slíkt samband eða hvort þjóðin telji hagsmunum sínum betur borgið á þann hátt. Þetta þurfi að ræða áður en við förum að ræða hvernig samningur getur litið út.

„Við þurfum að svara því hvort við viljum taka þátt í þeirri vegferð sem augljós er,“ segir Illugi.

–En hvernig á þjóðin að svara þessari spurningu?

„Þjóðir hafa svarað þessari spurningu áður en þær sækja um með því að kjósa flokka í meirihluta á þjóðþing sín sem leggja áherslu á ESB-aðild og sótt um aðild á grundvelli þess. Annar möguleiki er, eins og Sjálfstæðisflokkurinn lagði til 2009, að það fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. Þá vöruðu sjálfstæðismenn við því að það væri farið af stað með umsókn þar sem annar stjórnarflokkurinn var á móti því að sækja um en hinn flokkurinn meðmæltur.“ Enda hafi farið svo að umsóknarferlið stöðvaðist.

Enn er ekki ljóst hvað verður um afar umdeilda þingsályktunartillögu Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að draga eigi til baka umsókn Íslands að Evrópusambandinu. Illugi kveðst ekki vilja tjá sig um tillöguna eða hugsanleg afdrif hennar, svarar því einungis til að tillagan sé á forræði utanríkisráðherra.

Illugi segir að þjóðin eigi annarra kosta völ en að ganga í Evrópusambandið.

„Ef við lítum til sögunnar þá hefur okkur vegnað ágætlega þó við séum ekki í ESB. Við höfum EES-samninginn og þar með aðgang að innri markaði sambandsins sem skiptir miklu máli. Nýlega höfum við gert fríverslunarsamning við Kína og áfram er unnið á vettvangi EFTA-ríkjanna við gerð fríverslunarsamninga. Við eigum góð færi á slíkum samningum sem fámenn þjóð sem auðvelt er að semja við. Þegar kemur að utanríkisviðskiptum þá eru okkur allir vegir færir og það er hægt að halda því fram að við eigum ekki minni möguleika utan ESB en innan.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×