Innlent

Bloggarinn Páll Vilhjálmsson sýknaður af meiðyrðamáli fréttakonu

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Páll Vilhjálmsson
Páll Vilhjálmsson vísir/gva
Páll Vilhjálmsson bloggari var sýknaður í meiðyrðamáli, í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, sem fréttakona RÚV, Anna Kristín Pálsdóttir, höfðaði gegn honum síðasta sumar.

Anna Kristín stefndi Páli vegna færslu sem hann skrifaði á vefsvæði sitt um frétt sem Anna Kristín flutti á RÚV 16. júlí í fyrra. Þar sakaði Páll Önnu Kristínu um að falsa ummæli forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins svo þau féllu betur að málstað ESB-sinna.

Páll krafðist þess í byrjun febrúar að málinu yrði vísað frá dómi en því var hafnað af Héraðsdómi.

„Þetta er mjög sérstakt mál, ég man ekki til þess að fréttamaður hafi stefnt vegna gagnrýni á frétt. Þannig að það verður fróðlegt að sjá hvernig aðalmálsmeðferðin fer og hvernig úrlausn dómari veitir þá, þegar öll meginrök, með og á móti, koma fram,“ sagði Páll í samtali við Vísi í febrúar.

„Ég hef aldrei í mínum störfum sem fréttamaður veigrað mér við gagnrýni en í nýlegum skrifum Páls Vilhjálmssonar er ég sökuð um fréttafölsun af yfirlögðu ráði,“ sagði Anna Kristín í samtali við DV síðasta sumar. Slíku gæti hún ekki setið undir. Með því væri vegið að æru hennar og starfsheiðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×