Innlent

Amnesty safnaði 1000 undirskriftum í Gleðigöngunni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Atriði Amnesty á laugardaginn.
Atriði Amnesty á laugardaginn. Mynd/Pétur Friðgeirsson
Fulltrúar Amnesty söfnuðu um eitt þúsund undirskriftum í tengslum við Gleðigönguna á laugardaginn til stuðnings norsku transkonunnar John Jeanette Solstad Remø og Ihar Tsikhanyuk frá Hvíta-Rússlandi. Þetta kemur fram í frétt á vef Amnesty.

Íslandsdeild Amnesty International var með skipulagt atriði í göngunni. Þar sýndu fulltrúar deildarinnar á táknrænan hátt mannréttindabrot gegn hinsegin fólki sem víða eru viðhöfð í heiminum. Ungliðarnir léku fanga og fangaverði og héldu á spjöldum sem sögðu frá því að í 78 ríkjum heims er samkynhneigð bönnuð með lögum.

Að göngunni lokinni héldu liðsmenn Amnesty niður á Lækjartorg þar sem Íslandsdeildin hafði sett upp bás. Þar var almenningur hvattur til að sýna tveimur ólíkum mannréttindamálum stuðning sinn.

Vagn Amesty á laugardaginn.Vísir/Vilhelm
Þar vöktu þeir máls á baráttu norsku transkonunnar John Jeanette Solstad Remø sem berst fyrir rétti sínum til lagalegrar viðurkenningar á kyni sínu. Hún hefur ekki viljað klára það ferli sem hún þarf samkvæmt norskum lögum til að fá kyni sínu leiðrétt eins og við fjölluðum ítarlega um á heimasíðu Netákallsins.

Hitt málið var svo mál Ihar Tsikhanyuk frá Minsk í Hvíta Rússlandi. Í febrúar á síðasta ári sætti hann lögregluofbeldi eftir að hafa stofnað samtök um réttindi samkynhneigðra. Hann hefur ítrekað óskað eftir því að yfirvöld rannsaki ofbeldið en þau hafa neitað þeirri beiðni. Hann bíður þess enn að réttlætinu sé fullnægt.

Íslandsdeild Amnesty gaf þeim sem skrifuðu undir listann regbogaarmband sem á var ritað „Ást er mannréttindi“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×