Innlent

Starfsmenn Fiskistofu afhentu ráðuneytinu áskorun: „Svona gerir maður ekki“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ráðuneytisstjóri tók við áskoruninni.
Ráðuneytisstjóri tók við áskoruninni. vísir/valli
Um fjörutíu starfsmenn Fiskistofu mættu í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið við Skúlagötu í morgun til að afhenda Sigurði Inga Jóhannssyni sjávarútvegsráðherra áskorun. Fólkið skorar á ráðherrann að hætta við að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar. Yfirskrift áskorunarinnar er „Svona gerir maður ekki“.

Starfsfólkið mætti í þeirri von að fá að afhenda ráðherranum áskorunina. Hann var hins vegar ekki viðstaddur og tók ráðuneytisstjóri því við áskoruninni. Að sögn starfsmanna hafa þau reynt ítrekað að ná í Sigurð Inga undanfarnar tvær til þrjár vikur en án árangurs. Vonbrigðin í hópnum voru mikil.

Við afhendinguna.vísir/valli
Áskorunin er í fjórum hlutum,  en hana má sjá í heild hér fyrir neðan.

Haltu höfuðstöðvum Fiskistofu áfram í Hafnarfirði, Sigurður Ingi!

Við starfsmenn Fiskistofu skorum á þig, Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að hætta við að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar.

Þú yrðir maður að meiri og um leið leiddir þú málið út úr því öngstræti sem það er komið í. Erindi umboðsmanns Alþingis ætti eitt og sér að nægja til að vekja þig til umhugsunar.

1. Ákvörðun um flutning Fiskistofu ER ólögmæt þ.e heimild Alþingis liggur ekki fyrir. Það er skýrt með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 312/1998. Þá vekjum við líka athygli þína á því með vísan til dómsins að auk lagaheimildar verða ákvarðanir stjórnvalda að hlíta ákveðnum meginreglum stjórnsýsluréttar.

2. Starfsemi Fiskistofu hefur nú þegar orðið fyrir skaða af áformunum einum saman. Nokkrir starfsmenn hafa sagt upp og horfið af vettvangi. Aðrir líta í kringum sig eftir öðru starfi. Fiskistofa mun því skaðast enn frekar og þekking og fjármunir munu tapast. Fiskistofa stendur ekki undir lögbundnu hlutverki sínu ef hún verður viðskila við reynslu og þekkingu fjölda starfsmanna. Stofnun er fyrst og fremst mannauðurinn, þekking hans, hæfni og reynsla. Sérstaklega er þetta mikilvægt nú þegar boðaðar hafa verið umfangsmiklar breytingar á stjórn fiskveiða.

3. Bandalag háskólamanna (BHM) færir rök fyrir því að kostnaður við starfsmannaveltu á hvern starfsmann nemi tvöföldum til fjórföldum árlegum launakostnaði hans. Í því ljósi vanmetur ríkisstjórnin flutningskostnað Fiskistofu gróflega með því að segja að hann sé 200 - 300 milljónir króna.

4. Byggðasjónarmið sem vísað hefur verið til standast ekki skoðun.

  a. Atvinnuleysi í Hafnarfirði var að meðaltali 1,2 prósent meira en á Akureyri árið 2013.

  b.Stöðugildum hjá ríkinu fækkaði um nær 21 prósent í Hafnarfirði á árunum 2007-2013 en um 5,4 prósent á Akureyri.

  c. Stöðugildum á vegum ríkisins á Akureyri voru 1.004 árið 2013 en 495 í Hafnarfirði.

  d. Stöðugildum á vegum ríkisins á höfuðborgarsvæðinu fækkaði um 464 á árunum 2007-2013, þar af stöðugildum í Hafnarfirði um 128 eða 28 prósent.

Þegar þú hefur lesið þessa áskorun okkar, Sigurður Ingi og jafnframt velt fyrir þér erindi umboðsmanns Alþingis, er rökrétt að álykta: „Svona gerir maður ekki“.

Við treystum því að þú að vel íhuguðu máli og að teknu tilliti til stjórnfestu, dómafordæma, starfsmannamála, kostnaðar og ekki síst væntanlegra breytinga á lagaumhverfi um stjórn fiskveiða fallir alfarið frá ákvörðun um flutning höfuðstöðva Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar.

Við starfsmenn Fiskistofu skorum á þig að gera niðurlag þessarar áskorunar að þínum.


Tengdar fréttir

Ráðherra forðast Hafnfirðinga

Hafnfirðingar ná ekki eyrum Sigurðar Inga Jóhannssonar ráðherra, en bæjarstjóri hefur gert ítrekaðar tilraunir til að ná fundi hans. Mikil gremja er í Hafnarfirði vegna fyrirhugaðs flutnings Fiskistofu úr bæjarfélaginu.

Sjá engin rök fyrir flutningi Fiskistofu

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar segir engin málefnaleg rök fyrir flutningi Fiskistofu úr Hafnarfirði til Akureyrar. Ef byggðasjónarmið eigi að ráða megi benda á að atvinnuleysi sé meira í Hafnarfirði en á Akureyri og íbúum Akureyrar hafi fjölgað meira en að meðaltali á landinu.

Gagnrýnir bréf formanns BHM

Guðmundur Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, segir sérstakt að forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði og formaður Bandalags háskólamanna hafi sent frá sér bréf vegna Fiskistofu.

Gagnrýna flutning Fiskistofu

Flutningur Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar er vanhugsuð ákvörðun sem skaðar stofnunina og felur í sér alvarlegt brot á góðum stjórnsýsluháttum, segja tveir fyrrum forstjórar Fiskistofu, í grein sem þeir rita í Fréttablaðið í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×