Innlent

Gagnrýnir bréf formanns BHM

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Guðmundur er bæði gagnrýninn á bréfið og bréfritarann Guðlaugu.
Guðmundur er bæði gagnrýninn á bréfið og bréfritarann Guðlaugu. Vísir
Guðmundur Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, segir sérstakt að Guðlaug Kristjánsdóttir, formaður Bandalags háskólamanna, hafi sent frá sér bréf í nafni bandalagsins um flutning Fiskistofu frá Hafnarfirði norður á Akureyri en hún er forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Hann segir efni bréfsins einnig sérstaka gagnvart félagsmönnum.

Guðmundur gerði málið að umtalsefni á Facebook-síðu sinni í dag þar sem hann benti á að eini háskóli landsins sem kenni sjávarútvegsfræði sé Háskólinn á Akureyri. Þar sagði hann einnig að mikil reynsla sé af sjávarútvegi í bænum og að fjöldi háskólamenntaðra starfsmanna búi á svæðinu.

„Þessi framkoma hjá BHM gagnvart þeim félagsmönnum sem eru úti á landi er sérstök. Bréfið gefur það í skyn að það sé erfitt að vera með svona störf úti á landi,“ segir Guðmundur í samtali við Vísi. „Svo finnst mér svolítið sérstakt að þetta skuli vera sama konan í báðum þessum hlutverkum, sem forseti bæjarstjórnar og formaður BHM, að senda þetta bréf.“

Guðlaug skrifaði undir bréfið sem sent var til ráðamanna og hagsmunaaðila sem formaður BHM. Í bréfinu er flutningurinn gagnrýndur harðlega og ákvörðunin sögð illa ígrunduð, óundirbúin og feli í sér brot á lögum. Bæjarstjórnin í Hafnarfirði hefur líka gagnrýnt flutning Fiskistofu.

Þóroddur Bjarnason, formaður stjórnar Byggðastofnunar, hefur viðrað svipuð sjónarmið á Facebook. Í samtali við Vísi segir hann Ísland vera lítið og að hagsmunaárekstrar séu nánast óumflýjanlegir. Sjálfur segist hann þurfa að vera meðvitaður um mismunandi aðstæður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×