Innlent

Þorir vart úr húsi: „Hann náði mér sem betur fer ekki“

Samúel Karl Ólason skrifar
Konan var á göngu með hund á milli Suðurengis og Vesturhóla fyrir miðnætti á þriðjudagskvöldið þegar karlmaður réðst aftan að henni.
Konan var á göngu með hund á milli Suðurengis og Vesturhóla fyrir miðnætti á þriðjudagskvöldið þegar karlmaður réðst aftan að henni. Vísir/GVA
Lögreglan á Selfossi hefur fengið nokkrar ábendingar vegna árásar á unga konu á þriðjudagskvöldið. Rannsókn málsins er þó í ákveðinni pattstöðu og ábendingarnar hafa ekki leitt rannsóknina áfram. Konan segir þetta hafa verið óhugnanlega upplifun og að hún þori varla úr húsi.

Konan var á göngu með hund á milli Suðurengis og Vesturhóla fyrir miðnætti á þriðjudagskvöldið þegar karlmaður réðst aftan að henni. Þá veittist hann að henni með eggvopni og gataði úlpu hennar sem er ónýt.

„Hann náði mér sem betur fer ekki. Fyrir utan andlitið á mér,“ segir konan í samtali við Vísi. Maðurinn sló hana hnefahöggi í andlitið og leitaði í vösum hennar. Hundurinn stökkti manninum þó á flótta vestur göngustíginn í átt að Lágengi.

Göngustígurinn er ekki upplýstur og vegna myrkursins sá hún ekki framan í manninn. Hún lýsti honum sem þreknum og um 175 sentímetrar á hæð.

Árásin átti sér stað skammt frá heimili hennar og hafði hún verið á göngu í um tíu mínútur. „Mér finnst þetta mjög óhugnanlegt, og ég þori varla út úr húsi lengur.“

Allir þeir sem gætu búið yfir upplýsingum um mannaferðir á göngustígnum á milli Lambhaga og Tryggvagötu á milli klukkan 23:00 og 23:40 á þriðjudagskvöldið eða kannast við lýsingu af manninum eru beðnir að hafa samband við lögregluna á Selfossi í síma 480-1010.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×