Innlent

Armani og gullúr á Litla-Hrauni

Fjölskylda Ágústar Csillag mætti færandi hendi á Litla-Hraun í lok nóvember, daginn sem hann fagnaði 23 ára afmæli sínu í heimsóknarherbergi á Hrauninu. Hvert dýrindið á fætur öðru kom upp úr pökkunum, þ.á.m. Armani æfingagalli og forláta úr. Ágúst fagnaði hverri gjöf, þótt óneitanlega hafi andrúmsloftið verið öðruvísi en menn eiga að venjast í slíkum veislum utan veggja fangelsis.

Brestateymið hefur fylgt Ágústi eftir í 3 mánuði og afraksturinn birtist í lokaþætti Bresta á mánudagskvöldið. Ágúst var handtekinn í Danmörku árið 2012 og ákærður fyrir að hafa tekið þátt í að skipuleggja og smygla ekki minna en 27 kílóum af amfetamíni frá Hollandi til Danmerkur og aftur tæpum 22 kílóum árið 2012. Hann var svo dæmdur í 10 ára fangelsi síðastliðið haust. Í þættinum verður rætt við móður Ágústar, systur hans, fangaverði, afbrotafræðing og forstöðumann Litla-Hrauns til að leita svara við þeirri spurningu hvort fangelsisvist sé betrun eða refsing.

Áttundi og síðasti þáttur Bresta að sinni, verður á dagskrá mánudagskvöldið 8. desember kl. 20:35. Umsjónarmenn Bresta eru Lóa Pind Aldísardóttir, Kjartan Hreinn Njálsson og Þórhildur Þorkelsdóttir. Myndatökumaður er Björn Ófeigsson og Gaukur Úlfarsson leikstjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×