Innlent

Skipar starfshóp til að móta framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. vísir/gva
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur skipað starfshóp sem móta á tillögu að framtíðarstefnu í fæðingarorlofsmálum hér á landi en þetta kemur fram í tilkynningu frá Velferðarráðuneytinu.

Starfshópnum er ætlað að huga sérstaklega að því hvernig best megi ná markmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof um að tryggja barni samvistir við báða foreldra sína samhliða því að foreldrum verði gert kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf:

„Þarf meðal annars að líta til þess hvernig endurheimta megi þann megintilgang fæðingarorlofskerfisins að stuðla að því að röskun á tekjuinnkomu heimilanna verði sem minnst þegar foreldrar leggja niður störf í fæðingarorlofi til að annast börn sín ásamt því að tryggja samfellu milli fæðingarorlofs og þeirra dagvistunarúrræða sem eru fyrir hendi þegar fæðingarorlofi lýkur“ segir í skipunarbréfi starfshópsins.

Formaður starfshópsins er Birki Jón Jónsson. Aðrir nefndarmenn eru Álfheiður M. Sívertsen, tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins, Friðrik Hjörleifsson, tilnefndur af Bandalagi háskólamanna, Hallgrímur Guðmundsson, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Karen E. Halldórsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Maríanna Traustadóttir, tilnefnd af Alþýðusambandi Íslands og Sonja Ýr Þorbergsdóttir, tilnefnd af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×