Innlent

Ekki dæmd til frekara nálgunarbanns gagnvart lögreglumanni

Bjarki Ármannsson skrifar
Hæstiréttur telur skilyrðum fyrir nálgunarbanni ekki fullnægt.
Hæstiréttur telur skilyrðum fyrir nálgunarbanni ekki fullnægt. Vísir/GVA
Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að framlengja ekki nálgunarbann yfir konu sem tvisvar áður hefur verið dæmd í nálgunarbann gagnvart lögreglumanni fyrir áreiti og hótanir í garð hans. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vildi að konan yrði látin sæta nálgunarbanni í sex mánuði til viðbótar en hvorki héraðsdómur né Hæstiréttur féllust á kröfuna.

Forsaga málsins er sú að lögreglumaðurinn hafði afskipti af konunni í starfi sínu sem leiddi til þess að hún var handtekin. Í greinargerð lögreglu segir að konan hafi í kjölfarið brotið gegn manninum þannig að hún hlaut þrjátíu daga fangelsisdóm fyrir brot gegn valdstjórninni.

Í kjölfar þess að konan var handtekin var hún látin sæta nálgunarbanni frá júlí 2013 fram í janúar á þessu ári. Hún varð þó uppvís að því að klifra upp á svalir á heimili lögreglumannsins á meðan nálgunarbannið var í gildi og safna persónuupplýsingum um hann og fjölskyldu hans.

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði svo í maí síðastliðnum að konunni yrði aftur gert að sæta nálgunarbanni en þá á hún að hafa valdið honum ónæði með símhringingum og sendingu smáskilaboða, mestmegnis af kynferðislegum toga. Lögregla segir konuna tvisvar hafa nálgast manninn á almannafæri á meðan þessu nálgunarbanni stóð en í úrskurði héraðsdóms frá því í síðustu viku segir að skýrslur af þessum tveimur atvikum teljist ekki sanna vafalaust brot á nálgunarbanninu.

Í dómi Hæstaréttar frá því í dag segir að ekki verið ráðið með órækum hætti að skilyrðum sé fullnægt til að dæma konuna til áframhaldandi nálgunarbanns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×