Innlent

Talsverð röskun á flugi vegna veðurs

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Flugstöð Leifs Eiríkssonar vísir/gva
Óveður það er nú geysar hefur áhrif á ferðir ýmissa ferðamanna. Fólk hugsar sig eflaust tvisvar um áður en það fer af stað út á þjóðvegi landsins og að auki hefur talsverð röskun orðið á flugferðum.

Allt innanlandsflug liggur nú niðri og ekki er áætlað að það hefjist á ný fyrr en í fyrsta lagi í fyrramálið. Einnig hefur millilandaflug raskast en alls hefur tólf flugum verið aflýst, sjö komum og fimm brottförum.

„Við höfum þurft að aflýsa tveimur ferðum til London og Berlín sem og ferðum til baka frá sömu völlum í kvöld,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW Air. Hún bendir farþegum á að fylgjast með heimasíðu félagsins sem og upplýsingum um komur og brottfarir. Einnig hafi flugvél á leið til landsins frá Kaupmannahöfn þurft að lenda á Akureyri en henni verður flogið til Keflavíkur við fyrsta tækifæri.

„Nokkrar ferðir hjá okkur hafa fallið niður. London, Osló og Stokkhólmur til að mynda og þá ferðir til baka. Þetta hefur áhrif á um 1.500 farþega,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. Hann segir að vonast sé til að vélar félagsins á leið vestur yfir haf komist í loftið nú síðdegis.

Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að félagið muni þjónusta vélar eftir fremsta megni. Ef vindur verði hins vegar of mikill þá sé ekki hægt að leggja vélunum upp að landgöngum og ómögulegt að þjónusta þær. Vonandi finnist samt svigrúm til að koma sem flestum vélum á loft.

Farþegum er bent á að fylgjast með upplýsingum um flug sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×