Innlent

Segir hnífinn kominn inn að beini

Birta Björnsdóttir skrifar
Reglulegur fundur stjórnenda Landspítalans fór fram á Grand Hótel í dag þar sem lagðar eru línur um innra starf spítalans.

„En fundurinn fer nú fram í skugga verkfalls og bágrar fjárhagsstöðu spítalans,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

„Það hefur verið mikið verið skorið niður hjá okkur undanfarin ár og við erum komin inn í bein. Það yrði mjög sársaukafullt að ganga lengra í niðurskurði. Auk þess sem verkefnin eru alltaf að aukast vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar og svo framvegis.“

Páll segir byggingu nýs Landspítala einnig hafa komið til umræðu.

„Í þessari umræðu er svo varla hægt að skilja að kjör starfsfólks, rekstrargrundvöll spítalans og þá síðan innviði og þá fyrst og fremst nýjar byggingar spítalans. Við skynjum mikinn meðbyr í samfélaginu og skilning á því að það þurfi að bæta húsakost Landspítalans,“ segir Páll.

Hann bendir á niðurstöður nýrrar könnunar Gallup máli sínu til stuðnings, þar sem 60% aðspurðra styðja byggingu nýs Landspítala á meðan fjórðungur var á móti.

„Þetta er ákaflega mikilvæg stuðningsyfirlýsing við það mikilvæga uppbyggingarverkefni sem nýbyggingar Landspítalans eru.“

Engar verkfallsaðgerðir eru boðaðar hjá læknum í vikunni en náist samningar ekki á þeim tíma leggja læknar á kvenna- barna og rannsóknarsviði Landspítalans niður störf á miðnætti á mánudag, sem og læknar á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins og á heilbrigðisstofnunum um land allt.

Páll segir vikuna vera einskonar stund milli stríða og stjórnendur hverrar deildar endurraði nú á biðlista og reyni að kalla inn fólk í aðgerðir eins og kostur er.

„Nú er stund á milli stríða og þá þarf að byrja að kalla inn fólk af biðlistum og endurraða á listana. Vandinn mun þó ekki liggja að fullu fyrir fyrr en verkföllum er lokið.“


Tengdar fréttir

Hafa miklar áhyggjur af stöðu Landspítalans

Forseti Alþingis tók við áskorun til stjórnvalda um að hætta við fyrirhugaðan niðurskurð í fjárlagafrumvarpi. Áhyggjur sjúklinga eru sagðar aukast og formaður Hjartaheilla segir fólk deyja meðan biðlistarnir lengist.

„Læknar eiga engra annarra kosta völ“

Félag læknanema lýsir yfir vonbrigðum vegna pattstöðu samningaviðræðna ríkissáttasemjara, Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands.

Stefna að stofnanasamningum við lækna

Kjarafundur lækna og ríkisins í morgun skilaði engu segir formaður samninganefndar lækna. Samninganefnd ríkisins mun hins vegar leggja til að stofnanasamningar verði gerðir samhliða kjarasamningum, samkvæmt upplýsingum úr Fjármálaráðuneytinu. Ljóst er að slíkir samningar eru mjög undeildir meðal lækna.

Stál í stál í læknadeilu og lítið fundað

Á bilinu sextán til tuttugu bráðaaðgerðir gerðar á Landsspítalnum á dag en venjulega eru aðgerðir um sextíu. Engin þjónusta á göngudeild geðdeildar Landsspítalans í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×