Innlent

Sér fram á áframhaldandi verkfallsaðgerðir hjá læknum

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Önnur verkfallslota lækna í Læknafélagi Íslands hefst á miðnætti í kvöld en þá leggja læknar á rannsóknar, kvenna og barnasviði Landspítala niður störf. Verkfallslotur áttu upphaflega að vera þrjár, en formaður samninganefndar lækna segir algjöra kyrrstöðu vera í samningaviðræðum og gerir ráð fyrir að frekari verkfallsaðgerðir verði skipulagðar strax að þeim loknum.

Stjórn landspítala hefur síðustu daga metið þau áhrif sem fyrsta verkfallslotan hafði á starfsemina, og er vinna hafin við að endurraða á fjölda biðlista sem lengst hafa mikið vegna verkfallsaðgerðanna. Það mun hafa áhrif á skipulagða tíma og aðgerðir sjúklinga eitthvað fram á næsta ár.

Læknar á rannsóknar, kvenna- og barnasviði Landspítala leggja niður störf á miðnætti, auk þess sem verkfallið nær til heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Eru aðgerðirnar endurtekning á fyrri verkfallslotunni í október og nóvember.

Sigurlaug Pétursdóttir er formaður samninganefndar lækna í læknafélagi Íslands. Hún segir viðræðurnar í algjörri kyrrstöðu og að engin tilboð hafi verið lögð fram.

„Það er áfram verið að skoða tæknileg atriði samningsins en ekkert farið að þokast í eiginlega átt með að semja, varðandi tölur og slíkt,“ segir hún. „Þeir hafa ekki verið tilbúnir að hækka sig um neitt þannig að það er ekki til umræðu um að lækka sig heldur.“

Þriðja og síðasta skipulagða verkfallslotan hefst að öllu óbreyttu í desember. Sigurlaug segir líklegt að til frekari verkfallsaðgerða komi strax í janúar.

„Það verður rætt á félagsfundi hjá okkur hvað tekur við en ég á alveg eins von á að það verði áframhaldandi verkföll í janúar. Og það sem verra er að ég á von á því að einhverjir gefist upp, því miður, og hætti,“ segir hún. „Þegar ekkert gerist í samningamálum og fólk getur gengið að stöðum erlendis þá auðvitað kemst hreyfing á einhvern hluta.“

Næsti fundur í deilunni er fyrirhugaður hjá ríkissáttasemjara á þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×