Innlent

Segir ógerlegt fyrir ríkisstjórnina að verða við kröfum lækna

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Kári Stefánsson segir ógerlegt fyrir ríkisstjórnina að verða við kröfum lækna, það geti sett samfélagið á hliðina að ganga að kröfum um 30-50 prósenta launahækkanir. Læknar hefðu þurft að vera hóflegri í kröfum sínum.

Kári sagði á Sprengisandi í morgun að kjaradeila lækna væri alvarlegt og erfitt mál. Fjármálaráðherra hefur sagt að læknar fari fram á tuga prósenta launahækkanir, en á borðinu liggur tilboð uppá tveggja komma átta prósenta hækkun.

„Heilbrigðiskerfið mátti náttúrulega ekki við því að það kæmi læknaverkfall ofan á öll önnur vandræði,“ sagði hann. „Mér finnst nú einhvernvegin eins og félagar mínir innan læknasamtakanna hafi verið heldur klaufalegir í hvernig þeir hafa hannað sínar kröfur. Það er mjög erfitt að koma til ríkisstjórnar, eða koma til ríkisins í dag, og fara fram á 30 til 50 prósent launahækkun.“

Kári sagði að kröfur lækna hefðu átt að vega hógværari og samfélagið færi á hliðina ef gengið yrði að kröfum um 30-50 prósenta launahækkanir. „Það er næstum því eins og að koma til manns og segja: ég er með biluð lungu og hjarta, ég þarf lungna- og hjartatransplant, gefðu mér lungun þín og hjarta,“ sagði hann.

„Þetta samfélag kemur til með að fara á hliðina ef við göngum að kröfum um 30 til 50 prósent launahækkun. Mér hefði fundist þeir ættu að vera hógværari í prósentukröfum um launahækkun og fara frekar fram á að breyta þrepum í launastigum og svo framvegis og svo framvegis,“ sagði Kári í þættinum.

Hann sagði að staðan væri erfið fyrir báða aðila; erfitt væri fyrir ríkið að ganga að kröfunum og að nú ættu læknar erfitt með að bakka með þær. Hann segir þó liggja ljóst fyrir að læknar hafi lækkað mikið í launum síðustu ár.

„Staðreyndin er sú að læknar hafa lækkað hlutfallslega í launum töluvert mikið upp á síðkastið. Þetta var hálaunastétt þegar ég var að ljúka læknadeild en hún er það ekki lengur. Hún er einhverstaðar í miðjunni og þessari stétt finnst hún eiga betra skilið,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×