Innlent

Læknar munu segja upp semjist ekki fyrir áramót

Formaður samninganefndar lækna segir mikla hættu á að fjöldi lækna segi upp störfum hjá spítalanum verði ekki samið fyrir áramót. Verkfallsaðgerðir lækna hefjast á ný á miðnætti í kvöld, þar sem læknar á rannsóknar, kvenna- og barnadeildum Landspítalans leggja niður störf. 

Í síðustu verkfallslotu var þrjú hundruð sérhæfðum skurðaðgerðum og meðferðum frestað, fjögur hundruð skipulögðum rannsóknum og um eittþúsund dag – og göngudeildarkomum. Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítalanum segist hafa áhyggjur af næstu dögum.

„Það er náttúrlega augljóst að þetta vandamál vindur uppá sig. Afleiðingarnar eru mjög erfðar því það er nú þegar nánast hundrað prósent nýting á rúmum hjá okkur og á skurðstofunum. Þetta gerir okkur gríðarlega erfitt fyrir og versnar eftir því sem á líður,” segir Ólafur. 

Læknar samþykktu þrjár verkfallslotur í október, nóvember og desember. Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninganefndar lækna, segir líklegt að frekari verkfallsaðgerðir verði skipulagðar á næstunni og að til þeirra komi strax í janúar. Hún segir deiluna í algörri kyrrstöðu og er ekki bjartsýn á að samið verði í bráð.

„Ef ekkert breytist býst ég við áframhaldandi verkföllum eftir áramót. Það eru læknar sem að eru í startholunum að segja upp ef ekki næst að semja. Menn eru farnir að athuga með vinnu erlendis og slíkt, en hættan er að ef fólk segir upp þá komi það ekki til baka, jafnvel þótt við semjum,” segir Sigurveig.

Verkfallsaðgerðirnar teygja anga sína víða, en röskun verður á starfsemi á þremur sviðum landspítala auk heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heilbrigðisstofnana á Vesturlandi, Vesfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi, Suðurlandi og Suðurnesjum.  Næsti fundur í deilunni verður hjá Ríkissáttasemjara á þriðjudag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×