Innlent

Vilja Aldísi og Áslaugu Örnu í ritaraslag

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aldís Hafsteinsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Aldís Hafsteinsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram um helgina þar sem miðstjórn flokksins mun leggja til að embætti 2. varaformanns Sjálfstæðisflokksins verði lagt niður en þess í stað verður ritari kjörinn. Kosið verður um embættið á fundinum.

Guðlaugur Þór Þórðarson ætlar að gefa kost á sér í embættið. Þá hefur fólk innan Sjálfstæðisflokksins skorað á Aldísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra í Hveragerði, að bjóða fram krafta sína. Sömu sögu er að segja um Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, laganema og fyrrverandi formann Heimdalls, að bjóða sig fram gegn Guðlaugi Þór.

Einungis einn maður hefur gegnt embætti 2. varaformanns flokksins, en það er Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. Hann var kjörinn í embættið í mars 2012 og endurkjörinn í febrúar 2013. Þá fékk hann einmitt mótframboð frá Aldísi og hafði sigur með 59 prósentum greiddra atkvæða en Aldís fékk 41 prósent.

Aldís segist í samtali við Vísi vissulega hafa fengið áskoranir. Hún ætli þó ekki í framboð enda gegni hún nú þegar fjölda ábyrgðarhlutverka innan flokksins. Aldís segir að sér finnist skrýtið að verið sé að búa til embætti ritara. Hefði hún talið eðlilegra að leggja niður embætti 2. varaformanns án þess þó að búa til nýtt embætti.

Áslaug Arna staðfestir sömuleiðis við Vísi að fólk hafi komið að mála við sig. Hún hafi þó ekki í hyggju að svara því kalli.

Í skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins segir að annar varaformaður Sjálfstæðisflokksins sé staðgengill formanns og varaformanns í fjarveru þeirra. Hann skuli ekki gegna ráðherraembætti á vegum flokksins og skuli segja af sér taki hann við ráðherraembætti. Ekki hefur verið kosinn nýr varaformaður eftir að Kristján tók við ráðherrastöðu.

Flokksráðsundurinn fer fram á Grand Hótel um helgina. Kostar 3000 krónur á fundinn en skráning fyrir flokksráðmeðlimi fer fram á heimasíðu flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×