Innlent

Tafðist um nokkrar klukkustundir að koma stórslösuðum manni á Landspítalann

Gissur Sigurðsson skrifar
Sauðárkrókur
Sauðárkrókur
Það tafðist nýverið um nokkrar klukkustundir að koma stór slösuðum manni á Landspítalann þar sem Isavia hafði ekki hirt um að halda flugvellinum á Sauðárkróki opnum og tækjabúnaði í lagi.

Dæmi eru um að heimamenn á landsbyggðinni opni flugvelli í sjálfboðavinnu í neyðartilvikum. 

Sjúklingurinn hafði höfuðkúpubrotnað á hörðum árekstri tveggja bíla skammt frá Sauðárkróki á fimmtudaginn í síðustu viku og óskuðu sjúkraflutningamenn þegar eftir sjúkraflugvél til að flytja hann á Landspítalann.

Kom þá í ljós að völlurinn hafði verið ófær vegna snjóa í nokkra daga og að Isavia var búin að segja eftirlitsmanni vallarins upp, nema hvað hann sinnir áfram útköllum. Hann brá skjótt við, en ljóst var að það tæki að minnsta kosti klukkustund að ryðja völlinn.

En þegar til átti að taka kom í ljós að snjóruðningstækið var rafmagnslaust og að töfin yrði enn lengri. Var þá brugðið á það ráð að flytja hinn slasaða í sjúkrabíl í flug hálku yfir Öxnadalsheiðina og á sjúkrahúsið á Akureyri, þar sem hann fékk aðhlynningu fyrir flugið til Reykjavíkur. Það tafðist því um nokkrar klukkustundir að hann kæmist á Landsspítalann.

„Svona ásigkomulag lítið notaðra flugvalla er ekkert einsdæmi,“ segir Þorkell Ásgeir Jóhannsson, flugstjóri hjá Mýflugi en hann annast sjúkraflug.

„Það eru vellir sem við þurfum samt sem áður að komast til og þá rekum við okkur á þetta að þeim er ekkert vel sinnt, jafnvel þó að viljinn sé fyrir hendi. Umsjónarmaður flugvallarins er eftir sem áður Isavia og eru þeir ekkert að greiða mönnum fyrir að sinna völlunum.“

Þorkell segir að dæmi séu um að sjálfboðaliðar sjái um viðhald á flugvöllum.

„Við höfum jafnan flugvelli sem erfiðara er að þjóna áætlunarflugi, en þar er fast starfsfólk sem sinnir okkur allan sólahringinn. Það starfsfólk fær jafnvel ekkert greitt fyrir þau útköll.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×